Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, sem heldur utan um framkvæmdir og fjármögnun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við Kjarnann að uppbygging hágæða almenningssamgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu sé „lykilþáttur“ í því að auka samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins við aðrar sambærilegar borgir á Norðurlöndunum.
„Borgarlínan er ekki bara samgönguverkefni, þetta er umbreytingarverkefni á höfuðborgarsvæðinu, borgarumbreytingarverkefni,“ segir Davíð, sem ræddi við blaðamann um ýmis verkefni sem standa fyrir dyrum hjá Betri samgöngum í aðdraganda jóla.
„Ég held að við þurfum að hugsa meira þannig að það er bara ein borg á Íslandi og það er höfuðborgarsvæðið, ekki bara Reykjavík. Við þurfum að horfa á þetta allt saman, líta á þetta allt sem eina borg og gera okkur grein fyrir því að við erum í heilmikilli samkeppni um fólk og sér í lagi unga fólkið okkar. Nýir íbúar, börn sem vaxa úr grasi eða innflytjendur og Íslendingar sem koma aftur heim, þetta fólk er hagvöxtur. Þetta er það sem drífur áfram hagvöxt, það er nýtt fólk. Það er lykilatriði, og sérstaklega núna þegar barneignum fer fækkandi, er mikilvægt að við löðum til okkar fólk, bæði innflytjendur og Íslendinga sem hafa flutt út, því það er það sem drífur áfram hagkerfið okkar,“ segir Davíð.
„Borgarlínan er lykilþáttur í því, að við séum með hágæðaalmenningssamgöngukerfi, sambærileg við þau sem Íslendingar eru vanir að nota sem hafa búið í borgum á Norðurlöndunum. Þar þurfum við ekkert að bera okkur saman við Kaupmannahöfn, Stokkhólm og Ósló, einhverjar stórborgir, við getum borið okkur saman við meðalstórar norrænar borgir og höfuðborgarsvæðið er bara ein af þeim,“ bætir hann við.
Davíð segir höfuðborgarsvæðið sé meðalstór norræn borg og í þeim nær öllum séu hágæða almenningssamgöngukerfi. Slíkt kerfi sé til þess fallið að það sé hægt að þétta byggð nálægt stöðvunum, meðfram línunni, „sem dregur úr ferðatíma og býr til skemmtilegra borgarumhverfi og það er það umhverfi sem meginþorri ungs fólks allavega vill lifa í, í þéttu umhverfi þar sem það getur notað fjölbreytta ferðamáta“.
Bíllinn verði áfram vinsælastur
Davíð segir að þrátt fyrir að horft sé til þess að ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu breytist með tilkomu Borgarlínu muni flestir áfram nota einkabílinn.
„Bíllinn verður áfram vinsælasti ferðamátinn þrátt fyrir að öll okkar plön gangi eftir en það verður allavega til staðar þessi möguleiki fyrir mjög margt fólk að nota Borgarlínuna og Strætó líka, sem verður enn betri þegar hann verður kominn með Borgarlínuna sem svona hryggjarstykkið í sér,“ segir Davíð og nefnir að auki fjárfestingu í betri hjóla- og göngustígum á höfuðborgarsvæðinu.
„Við erum auðvitað að setja marga milljarða í þau verkefni líka svo að sá ferðamáti nýtist enn betur. Við erum að sjá gríðarlegan vöxt í notkun á þeim ferðamáta og það gerist ekki af sjálfu sér, það gerist með því að það sé fjárfest í þessu og menn búi til betri innviði því fólk er í eðli sínu skynsamt, það gerir það sem það telur vera hagkvæmast,“ segir Davíð.
„Ef það er kominn ótrúlega góður ferðamáti sem hentar þér betur en það sem þú notaðir áður þá mun margt fólk breyta ferðavenjum sínum. Það er reynslan alls staðar, við erum ekkert að reyna að finna upp hjólið. Allar borgir í Evrópu sem mér er kunnugt um og meira að segja mjög margar borgir í Norður-Ameríku, gamlar bílaborgir, eru að fara þessa leið, að leggja höfuðáherslu á fjölbreytta ferðamáta, almenningssamgöngur, göngu- og hjólastíga frekar en gamaldags mannvirki fyrir bíla, þó að við séum vissulega að fjárfesta mjög mikið í þeim hér,“ segir Davíð einnig.