Borgaryfirvöld þurfa jafnt sem íbúar að læra inn á göngugötur enda geta álitamál vegna þeirra reglulega komið upp. Þetta segir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar og fulltrúi um umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Kjarninn leitaði viðbragða Hjálmars við aðsendri grein sem nýlega var birt í Kjarnanum og ber heitið Lærðu á þetta.
Í greininni segir Guðrún Pétursdóttir frá vinkonu sinni sem á erfitt með gang og býr við götu í Reykjavík sem nýlega var gerð að göngugötu. Konan reiðir sig því á vini og ættingja til að ferja sig á milli staða en Guðrún gagnrýnir í greininni að aðstandendur konunnar geti ekki með góðu móti komist að húsi hennar á bíl. „Það verður að vera hægt að sækja sjúkling sem á heima við göngugötu. Ef það gengur ekki verðum við að kalla til sjúkrabíl í hvert sinn sem vinkona mín þarf að fara milli staða,“ ritar Guðrún meðal annars í greininni.
„Læra hvað, Hjálmar?“
Guðrún gerir útvarpsþáttinn Flakk með Lísu Pálsdóttur að umtalsefni í grein sinni og vitnar til orða Hjálmars sem hann lét falla í þættinum þegar göngugötur bar á góma. Guðrún ritar: „Þess vegna hjó ég í viðbrögð Hjálmars við athugasemd Lísu, um að það kunni að koma íbúum illa að bannað sé að aka um göngugötur og þungar sektir liggi við því að aka eða leggja í göngugötu. Hvað ef það vantar pípara með þungan búnað, sem hann getur ekki borið langa leið? Hvað með ömmu gömlu sem á að bjóða í mat, en getur ekki gengið spölinn að bílnum? Leigubílar fást ekki til að aka inn í göngugötur, því þeir eiga háar sektir yfir höfði sér. Þetta hlýtur að vera íþyngjandi fyrir íbúana, sagði Lísa. Hjálmar Sveinsson hafði engar áhyggjur af þessu: Það hafa verið göngugötur í öðrum löndum í áratugi. Fólk verður bara að læra á þetta.“
Í kjölfarið beinir hún spurningu til Hjálmars: „Læra hvað, Hjálmar?“
Þurfi að læra hvernig hægt sé að bregðast við álitamálum
„Þegar ég var í þessu viðtali endur fyrir löngu við hana Lísu og var að tala um að fólk þyrfti að læra inn á þetta þá átti ég náttúrlega við að ekki bara þeir sem eiga verslanir og íbúðir á göngugötum þyrftu að gera það heldur líka borgaryfirvöld. Það geta alltaf komið upp álitamál eins og þessi dæmisaga Guðrúnar lýsir,“ segir Hjálmar í samtali við Kjarnann.
Hjálmar bendir á að stæði fyrir hreyfihamlaða séu við gatnamót Laugavegar og þvergatna og segir að alltaf hafi verið lögð áhersla á að stutt sé í næsta stæði fyrir hreyfihamlaða allan þann tíma sem Laugavegur hefur verið göngugata.
„Varðandi svona einstök tilvik er ég kannski ekki með einhverjar lausnir á reiðum höndum en það er eitt af því sem við þurfum öll að læra, hvernig sé hægt að bregðast við svona tilvikum,“ segir Hjálmar.
Mun biðja um að þetta verði skoðað
Spurður að því hvernig hann ætli að bregðast við segir Hjálmar: „Ég ætla að biðja um að það verði athugað hvað er hægt að gera í tilvikum sem þessum. Ég hef ekki svörin við því en það eru þarna okkar ágætu borgarhönnuðir og svo þau sem sjá um umferðarmálin. Ég ætla að biðja um það að þetta verði skoðað.“
Aðspurður segist Hjálmar ekki hafa hugsað út í það að hafa samband við Guðrúnu eða vinkonu hennar en bætir við: „Ég er alveg til í að hafa samband við Guðrúnu, það er kannski ágætis hugmynd að gera það. Hún er mjög óánægð með þetta og ég er alveg sammála því að það þarf að skoða þetta.“