Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fimmtudag kaupsamninga vegna 19 íbúða í nýju fjölbýlishúsi sem risið er við Hallgerðargötu 1 á Kirkjusandi, og einnig kaupsamning vegna rýmis undir leikskóla sem til stendur að verði í húsinu. Alls er 81 íbúð í þessu nýja húsi, sem senn verður fullbúið.
Íbúðirnar, sem borgin kaupir af félaginu Hallgerðargata ehf., systurfélagi verktakafyrirtækisins Reir Verk sem byggir húsið, eru á bilinu 42,1-73 fermetrar á stærð og greiðir borgin á bilinu 19-33 milljónir fyrir hverja og eina íbúð.
Það er óravegu frá markaðsvirði íbúða í nýjum fjölbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu, en á vef sem settur hefur verið upp til þess að kynna íbúðir í þessu tiltekna húsi til sölu sést að 42,3 fermetra íbúð á fyrstu hæð kostar 47,9 milljónir króna, en einungis 17 íbúðir í húsinu eru enn óseldar.
Þetta lága kaupverð borgarinnar er byggt á samningum sem gerðir voru árið 2017, í kjölfar þess að borgin efndi til útboðs á sölu byggingarréttar og kaupum á íbúðum og leikskólahúsnæðis á lóðinni, en upphæðirnar í samningum voru innan marka hámarksbyggingarkostnaðar almennra íbúða sem sett voru í þágildandi reglugerð um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir.
Árið 2020 var samningurinn á milli borgarinnar og seljanda uppfærður og verðið hækkað í takt við uppfærða reglugerð þar að lútandi, en félagið sem er að byggja húsið taldi að umsamið kaupverð væri undir kostnaðarverði/framleiðsluverði íbúða í húsinu og sagði að erfitt hefði verið að fá banka til að fjármagna verkefnið af þeim sökum.
Samkvæmt kaupsamningunum sem borgarráð samþykkti á fimmtudag mun Reykjavíkurborg alls greiða 448,4 milljónir króna fyrir íbúðirnar 19 og svo 440,2 milljónir króna fyrir leikskólann, sem á að verða afhentur í apríl næstkomandi. Fyrirhugað er að leikskólinn, sem verður í um 740 fermetra rými á jarðhæð, verði ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 12-36 mánaða.
Ekki fleiri en 10 íbúðir verða seldar til Félagsbústaða
Reykjavíkurborg ætlar að framselja allar íbúðirnar 19 og gerir ráð fyrir því, samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fyrir borgarráð, að 10 íbúðir verði seldar til Félagsbústaða og að níu íbúðum verði „ráðstafað síðar“.
Þegar fjallað var um málið í borgarráði í gær lét Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins bóka að hún teldi að allar íbúðirnar 19 ættu að renna til Félagsbústaða.
Samkvæmt samningum við félagið sem er að byggja húsið er ekki mögulegt að svo verði, en í þeim er sérstaklega kveðið á um að íbúðir sem framseldar verði til Félagsbústaða verði ekki fleiri en tíu talsins. Í samningunum var einnig tiltekið að borginni væri einnig heimilt að framselja íbúðir til leigufélaga sem rekin væru án hagnaðarsjónarmiða.
Liggur ekki fyrir hvernig íbúðirnar verða seldar – eða á hvaða verði
Kjarninn beindi fyrirspurn til borgarinnar um það hvort fyrir lægi hvernig íbúðunum níu sem til stendur að ráðstafa síðar yrði ráðstafað. Einnig spurði blaðamaður hvort til stæði að eignirnar yrðu seldar á því verði sem borgin greiddi fyrir þær eða hvort tilboða yrði leitað í eignirnar.
Samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg er „hvorki búið að ákveða hvernig íbúðunum 9 verður ráðstafað né söluverð“ og einnig „liggur á þessu stigi ekki fyrir hvert fyrirkomulag sölunnar verður“.