Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að ef ekki fari að komast hreyfing á uppbyggingu húsnæðis á þróunarreit við Vesturbugt í Reykjavík, sem félag sem er í meirihlutaeigu fasteignafélagsins Kaldalóns hyggst standa að, þurfi Reykjavíkurborg einfaldlega að leysa lóðina aftur til sín.
„Þetta liggur inni í félagi sem heitir Kaldalón, sem er á hlutabréfamarkaði. Það er alltaf verið að segja að þeir séu að fara af stað og við erum alltaf að gera smá breytingar og annað slíkt. Þetta verður bara að fara af stað, annars förum við bara að leysa þessa lóð til okkar aftur. Það verður bara að vera þannig, því að við viljum að sú húsnæðisuppbygging sem er í pípunum og fólk tekur mið af í sínum áætlunum, að hún gangi eftir,“ sagði borgarstjóri í erindi sínu á árlegum fundi um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavíkurborg, sem haldinn var í morgun.
Sagði hann samþykkt skipulagið á reitnum vera frábært og að það væri „algjör synd“ að það væri ekki komið til framkvæmda nú þegar.
Töluvert hefur verið fjallað um fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum í fréttum undanfarin ár.
Í Viðskiptablaðinu sagði frá því snemma árið 2018, er Kaldalón keypti sig inn í félag sem heitir Vesturbugt og þar með verkefnið, að framkvæmdir gætu hafist síðar á því ári.
Haustið 2020 sagði svo frá því í frétt Stöðvar 2 að það styttist í framkvæmdir á reitnum. Þá var búið að breyta skipulagi aðeins og fjölga íbúðunum á reitnum.
Í Morgunblaðinu var svo síðastliðið sumar fjallað um frekari skipulagsbreytingar og fjölgun íbúða á reitnum og haft eftir Jónasi Þór Þorvaldssyni framkvæmdastjóra Kaldalóns að hönnun væri að ljúka. Einnig sagði hann að ef framkvæmdir myndu hefjast um nýliðin áramót, sem þær gerðu ekki, mætti búast við fyrstu íbúðunum á markað um mitt árið 2023.
Sagðist „handrukkari tímalínu í húsnæðismálum“
Skömmu áður í erindi sínu hafði Dagur fjallað um annan reit sem ekkert hefur hreyfst undanfarin ár þrátt fyrir að skipulagið sé löngu tilbúið, svokallaðan Blómavalsreit í Laugarneshverfi, sem Íslandshótel eiga.
„Ég er alltaf að hringja í Ólaf Torfason sem á Íslandshótel og þessa lóð og hann er alveg farinn að taka á sig krók, því ég er svona handrukkari tímalínu þegar húsnæðismál eru annars vegar,“ sagði Dagur, en skipulag reitsins var kynnt árið 2015 án þess að uppbygging hafi farið af stað. Íslandshótel áforma að fara af stað með framkvæmdir á reitnum á þessu ári.
Borgin segist ætla að tvöfalda lóðaframboð
Í erindi sínu á fundinum á morgun kynnti borgarstjóri að Reykjavíkurborg hefði áform um að tvöfalda lóðaframboð í borginni á hverju ári næstu fimm ár, úr 1.000 lóðum upp í 2.000.
Í fréttatilkynningu um þetta atriði sem barst frá Reykjavíkurborg í dag segir að þetta sér gert „í ljósi þess skorts sem nú er á nýjum eignum á húsnæðismarkaði“ og sé í takti við breytt mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um þörf á fjölda íbúða.
„Stofnunin hefur metið þarfir markaðarins um 3.500-4.000 íbúðir á ári á öllu landinu. Með tvöföldun myndi hlutur Reykjavíkur í uppbyggingu á landinu vaxa frá því að vera þriðjungur í að verða að minnsta kosti helmingur uppbyggingar,“ segir í tilkynningu borgarinnar.