Flugfélagið Malaysian Airlines hefur staðfest að brakið sem fannst á frönsku eyjunni Réunion á Indlandshafi í fyrradag sé af Boeing 777 flugvél. Afar líklegt er því að brakið sé af MH370, sem hvarf af ratsjám fyrir sextán mánuðum, í mars 2014. Vélin var á leið yfir Indlandshafið frá Kuala Lumpur til Peking. Stjórnvöld í Malasíu segja að brakið færi þau skrefi nær því að leysa ráðgátuna um hvarf flugvélarinnar.
Greint er frá nýjustu fréttum af málinu á vef The Guardian í dag og eftirfarandi myndskeið af brotinu birt. Brakið er tveir metrar og er talið hluti af væng.
Yfirmaður leitarteymisins, Ástralinn Martin Dolan, segir MH370 flugvél Malaysian Airlines vera einu Boeing 777 vélina sem hafi farist á svæðinu, svo vitað sé, og því brakið líklegast af henni. Enn sé þó unnið með frönskum og malasískum sérfræðingum við að greina upplýsingar þannig að allt sé rétt. Vonir standa til að staðfesting fáist innan 24 sólarhringa.