George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, ætlar sér að ná í um 23 milljarða punda, um 3.784 milljarða íslenskra króna, með því að selja eignir hins opinbera á þessu ári. Uppistaðan í þeim áformum er sala á námslánum sem breskir stúdentar tóku á árunum 1998 til 2012. Frá þessu er greint á vef Daily Mail.
Osborne reyndi líka að selja námslánin á síðasta kjörtímabili, en þá stóð Vince Cable, þáverandi viðskiptaráðherra Frjálslyndra demókrata, í vegi fyrir áformunum. Cable datt hins vegar af þingi í nýliðnum kosningum þar sem Íhaldsflokkurinn náði auk þess hreinum meirihluta og þarf því ekki að leita samþykkis samstarfsflokks lengur.
Seldu gömlu námslán allt of ódýrt
Virði námslánabókarinnar sem Osborne og Íhaldsflokkurinn vill selja til að skapa tekjur fyrir breska ríkið er um tólf milljarðar punda, um 2.500 milljarða íslenskra króna. Kaupandi lánanna mun þá taka yfir innheimtu allra námslána sem veitt voru á árunum 1998 til 2012, en þau eru í dag innheimt af ríkisfyrirtækinu The Student Loans Company.
Osborne hefur þegar selt námslán sem veitt voru fyrir árið 1998. Gagnrýnendur hafa sagt að þau hafi verið seld allt of ódýrt, eða á 160 milljónir punda (33,3 milljarðar íslenskra króna), þegar nafnvirði lánanna var 890 milljónir pund (185 milljarðar króna).