Bankaskandalar í Bretlandi, það er greiðslur vegna lögbrota banka til ríkisins og viðskiptavina, hafa þurrkað út um 60 prósent af hagnaði þeirra frá árinu 2011. Þetta kemur fram í skýrslu KPMG, sem nefnist A Paradox of Forces, sem Business Insider vitnar til.
Bankarnir Royal Bank of Scotland, Lloyds Banking Group, HSBC, Barclays og Standard Chartered hafa greitt samtals 57,6 milljarða Bandaríkjadala vegna lögbrota og sáttagreiðslna frá árinu 2011.
Í skýrslu KPMG segir að þessar háu greiðslur séu farnar að hafa mikil áhrif á rekstur bankanna, ekki síst þar sem ekki sér fyrir endann á því að greiðslurnar muni hækka enn meira, þar sem fjölmörg lögbrot hafa ekki verið til lykta leidd í dómskerfi eða sáttferli ennþá.
Bill Micheal, yfirmaður fjármálaráðgjafar KPMG, segir að bankar séu nú að fara í gegnum gríðarlega hraðar og miklar breytingar, þar sem eftirlitsstarfinu hefur verið breytt, tækninni fleytir fram og væntingar til fjármálastarfssemi í samfélaginu væru að breytast mikið. Hann segir breytingar sem þessar aðeins koma einu sinni í lífsleiðinni, svo miklar séu þær.