Árið 2020, þegar heimsfaraldur kórónuveiru geisaði í heiminum með tilheyrandi mannfalli og takmörkunum á lífsgæðum milljarða manna, hefur leitt af sér meiri auðsöfnun hjá ríkasta hópi Breta en áður hefur mælst.
Samkvæmt árlegum lista Sunday Times um ríkustu einstaklinga Bretlands jókst auður þeirra íbúa ríkisins sem mælast milljarðamæringar í breskum pundum talið um 21,6 prósent á síðasta ári. Þeir eru nú 171 talsins, 24 fleiri en þegar listinn var tekinn saman í fyrra, og hópurinn á samanlagt um 598 milljarða punda, eða 103.215 milljarða íslenskra króna. Auður þessa hóps jókst um 22.294 milljarða íslenskra króna á einu ári, eða 61 milljarð króna á dag að jafnaði. Á sama tíma létust nálægt 130 þúsund manns úr COVID-19 í Bretlandi, milljónir íbúa landsins fóru á hlutabætur og hundruð þúsunda misstu vinnuna.
Einn Íslendingur á listanum
Sá sem situr í efsta sæti á lista Sunday Times, sem var birtur um helgina, er Leonard Blavatnik. Hann er fjárfestir sem hefur meðal annars verið umsvifamikill í tónlistar- og afþreyingargeiranum og á öðrum sviðum fjölmiðlunar. Í fyrra seldi hann stóran hlut í Warner Music útgáfurisanum en á einnig umtalsvert af bréfum í honum áfram, sem hafa hækkað um 50 prósent í verði. Þetta er í annað sinn sem hann nær að vera í því sæti á listanum, en því náði hann einnig árið 2015.
Í úttektinni kemur fram að stærstu sigurvegarar síðasta árs, þegar árangur er mældur í aukningu á auð, séu eigendur fyrirtækja á borð við Boohoo, The Hut Group, Asos og Farfetch, sem leggja áherslu á netverslun. Á sama tíma og samkeppnisaðilar þeirra sem reka hefðbundnar verslanir þurftu að loka mánuðum saman vegna faraldursins, var fordæmalaust uppgrip hjá þessum aðilum.
Einn Íslendingur er á listanum yfir 250 ríkustu einstaklinga Bretlands, Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann situr í sæti númer 100 og fellur um átta sæti milli ára. Auður Björgólfs Thors er metinn á 1,6 milljarða punda, um 276 milljarða íslenskra króna, og jókst um 37 milljónir punda á síðasta ári, eða um 6,4 milljarða króna.
Jim Ratcliffe, aðaleigandi efnaframleiðslustórveldisins Ineos Group sem hefur stundað umfangsmikil uppkaup á jörðum á Íslandi, fellur á listanum á milli ára, úr 5. sæti í sæti númer 25. Ratcliffe var í fyrsta sæti listans árið 2018 og talinn ríkasti maður Bretlands það árið. Auður hans dróst verulega saman á síðasta ári og er nú talinn nema 6,3 milljörðum punda, alls 1.087 milljörðum íslenskra króna.
Kallað eftir risaskatti
Í umfjöllun Sunday Times er meðal annars fjallað um að sú mikla aukning á auði ríkustu íbúa Bretlands, á sama tíma og stór hluti annarra íbúa hefur þurft að ganga í gegnum mikla erfiðleika og þjáningar, hafi aukið þrýsting á stjórnvöld um að skattleggja COVID-19 auðsöfnunina með nýstárlegum og afgerandi hætti.
Talið er að um 700 þúsund manns í Bretlandi hafi færst fyrir neðan fátæktrarmörk vegna faraldursins og sú tala hefði orðið mun hærri ef ekki væri fyrir umfangsmiklar aðgerðir stjórnvalda þar í landi, sem hafa leitt af sér fjárlagahalla upp á 303 milljarða punda, 52.300 milljarða króna. Það er mesti halli á rekstri breska ríkisins síðan í seinni heimstyrjöldinni.
John Caudwell, sem sjálfur situr í 103. sæti listans og hefur hagnað gríðarlega á fjarskiptamarkaðnum, hefur til að mynda kallað eftir því að Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, setji á sérstakan einskiptis skatt vegna hagnaðar síðastliðins árs. Hann beinir spjótum sínum aðallega að þeim sem hagnast hafa sérstaklega vegna takmarkanna sem aðrir hafa orðið fyrir.
Á sama stað kallaði Caudwell skattasniðgöngu sem lengi hefur tíðkast hjá hinum ofurríku, sem nær allir borga mun minna hlutfall af árlegum ágóða sínum í skatta en þeir sem vinna hjá þeim, „sjúkdóm“. Caudwell sagði að sérstaki skatturinn ætti að vera svipaður að umfangi og hagnaður viðkomandi af því að takmarkanir voru settar á aðra fleti samfélagsins til að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum. Einfaldasta leiðin væri að leggja á einskiptis 90 prósent skatt á allan hagnað sem rekja megi beint til faraldursins.