Utanríkisráðuneyti Bretlands brýnir fyrir Bretum í Túnis að yfirgefa landið undir eins þar sem „mjög miklar líkur“ séu á að fleiri hryðjuverkaárásir séu yfirvofandi. Fréttamiðillinn SkyNews greinir frá málinu.
Búið er að fjölga flugferðum frá landinu og tvær breskar ferðaskrifstofur staðsettar í Túnis hafa ákveðið að senda starfsfólk sitt aftur til Bretlands.
Breska utanríkisráðuneytið segir að breskir ferðamenn eigi að yfirgefa landið nema þeir þurfi nauðsynlega að dvelja þar. Þá er brýnt fyrir fólki að ferðast alls ekki til Túnis nema bráð nayðsyn krefji.
Talið er að hátt í fjögur þúsund Bretar séu í sumarleyfi í Túnis.
Þann 26. júní síðastliðinn voru 38 ferðamenn, þar af þrjátíu Bretar, drepnir af byssumanni á baðströnd og við hótel í Port El Kantanoui, skammt frá Sousse. Herská samtök súnníta í Sádi Arabíu, sem eru tengd Íslamska ríkinu, lýstu yfir ábyrgð á voðaverkinu.
Í tilkynningu frá breska utanríkisráðuneytinu segir að vísbendingar um að fleiri hryðjuverkaárásir séu yfirvofandi í Túnis. Það hafi rannsókn yfirvalda í landinu leitt í ljós og hættan hafi aukist hratt á síðustu dögum.
„Fleiri hryðjuverkaárásir eru mjög líklegar, meðal annars á ferðamannastöðum, af hálfu einstaklinga sem eru í sambandi við hryðjuverkasamtök í gegnum samfélagsmiðla. Nú er mikilvægt að vera á varðbergi og fara að leiðbeiningum yfirvalda í Túnis og ferðaskrifstofunnar þinnar, ef þú ert á vegum slíkrar,“ sagði Phillip Hammond utanríkisráðherra Bretlands í sjónvarpsávarpi í dag. „Eftir síðustu árás í Sousse hafa upplýsingar okkar gefið til kynna að myndin hafi versnað til muna, þannig að við teljum nú að líkur á fleiri hryðjuverkaárásum séu mjög miklar.“