Íslandsbanki tilkynnti í dag breytingar á vöxtum bankans í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Allir stóru viðskiptabankarnir þrír hafa nú tilkynnt um vaxtabreytingar í kjölfar 0,5 prósentustiga hækkunar á meginvöxtum Seðlabankans.
Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hjá Íslandsbanka hækka um 0,20 prósentustig og verða þegar þessar breytingar hafa tekið gildi 4,15 prósent. Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til 3 ára hækka einnig um 0,20 prósentustig, en fastir vextir slíkra lána til 5 ára haldast óbreyttir í 5,5 prósentum.
Minni hækkun breytilegra vaxta hjá Íslandsbanka
Arion banki og Landsbankinn tilkynntu um vaxtahækkanir fyrr í vikunni. Bankarnir tveir hækkuðu breytilega vexti óverðtryggðra húsnæðislána meira en Íslandsbanki gerir nú, eða um 0,4 og 0,35 prósentustig.
Þessir vextir hjá Arion banka verða 4,29 prósent og hjá Landsbankanum 4,20 prósent, en verða sem áður segir 4,15 prósent hjá Íslandsbanka, sem var síðastur stóru bankanna til að kynna vaxtabreytingar sínar.
Íslandsbanki tilkynnir einnig í dag að fastir vextir verðtryggðra húsnæðislána með vaxtaendurskoðun komi til með að lækka um 0,45 prósentustig um mánaðamótin.
Hækkar útgjöld heimila strax
Ljóst er að þessi hækkun á vöxtum stóru bankanna mun bíta í buddu landsmanna. Stóru bankarnir þrír hafa sópað til sín íbúðalánum frá síðasta vori samhliða því að húsnæðisverð hefur hækkað skarpt og upphæðir lána samhliða hækkað mikið. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur orðið eðlisbreyting á lántökum landsmanna við það að hlutfall óverðtryggðra lána af öllum íbúðalánum hefur hækkað gríðarlega. Það var 27,5 prósent í byrjun árs 2020 en er nú komið yfir 50 prósent.
Hagnaður stóru bankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka var 60 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er meiri hagnaður en þeir hafa skilað innan heils árs frá 2015. Hagnaðurinn er drifinn áfram af vaxtatekjum, aðallega vegna íbúðalána, og hærri þóknanatekjum. Vaxtamunur stóru bankanna, sem er umtalsvert hærri en í samanburðarlöndum, hefur haldist tiltölulega stöðugur þrátt fyrir að bankaskattur hafi verið lækkaður umtalsvert.
Lífeyrissjóðirnir með bestu kjörin
Sem stendur bjóða lífeyrissjóðir upp á hagstæðustu óverðtryggðu íbúðalánin. Það gæti þó breyst í nánustu framtíð þegar næstu ákvarðanir um vaxtatöflu lána þeirra verða teknar.
Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, býður bestu óverðtryggðu kjörin sem stendur, 3,45 prósent vexti, og Brú lífeyrissjóður býður upp á 3,8 prósent vexti.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað í síðasta mánuði að stofna nýjan lánaflokk sjóðsfélagalána og lánar nú óverðtryggð lán til íbúðarkaupa með breytilegum vöxtum. Vextir hans eru nú 3,85 prósent.