Sérstök jólaútgáfa af tímaritinu Vísbendingu kemur út í næstu viku, þar sem áhersla verður lögð á loftslagsmál, sjálfbærni og grænar lausnir.
Nýr umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, verður í viðtali í Jólablaði Vísbendingar. Í viðtalinu er rætt við Guðlaug Þór um samspil náttúruverndar og loftslagsmála, uppbyggingu vindorkuvera og hvernig ríkisstjórnin hyggst standa við eigin markmið um kolefnishlutleysi. Fjöldi sérfræðinga skrifar ennfremur greinar í blaðið.
Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, gerir meðal annars grein fyrir breyttum tóni atvinnulífsins gagnvart umhverfinu á síðustu árum Hagfræðingurinn Guðrún Johnsen mun fjalla þar um samfélagslegt hlutverk lífeyrissjóða. Einnig verða greinar eftir Gunnar Jakobsson aðstoðarseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og Berglindi Ólafsdóttur framkvæmdastýru Orku náttúrunnar, auk annarra.
Síðasta viðhafnarútgáfa Vísbendingar kom út í vor, en þar var nýsköpun og hugverkaiðnaður í brennidepli. Blaðið innihélt meðal annars viðtal við Davíð Helgason, fjárfesti og stofnanda Unity, um frumkvöðlastarfsemi, leikjaframleiðslu og sprotafjárfestingar. Auk þess mátti finna þar greinar um kynjahalla í nýsköpun, iðnaðarstefnu fyrir Ísland og svör frá þingmönnum um hvernig ætti að efla nýsköpun hérlendis.
Vísbending gaf einnig út jólablað í fyrra, en það innihélt meðal annars viðtal við Má Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóra og greiningu á áhrifum spænsku veikinnar frá sagnfræðingnum Gunnari Þór Bjarnasyni.
Í ljósi umfjöllunarefnisins verður jólablað Vísbendingar ekki prentað út í ár og verður því eingöngu til á stafrænu formi. Líkt og hinar viðhafnarútgáfurnar verður það þó aðgengilegt öllum.
Vísbending er vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun sem er gefið út á hverjum föstudegi. Hægt er að gerast áskrifandi að blaðinu með því að smella hér.