Útgerðarfélagið Brim hagnaðist um 6,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Hagnaður félagsins var 113 prósent meiri en á sama tímabili í fyrra þegar hann er reiknaður í evrum, uppgjörsmynt Brims.
Tekjur Brims á fyrri helmingi ársins 2021 voru 34,3 milljarðar króna og eigið fé félagsins 58,6 milljarðar króna í lok júní síðastliðins. Eiginfjárhlutfallið var 50,4 prósent um mitt þetta ár.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra og stærsta eiganda Brims, að loðnuvertíðin hafi haft jákvæð áhrif á rekstur félagsins en á móti hafi orðið samdráttur í veiðiheimildum á þorski. Þá hafi verð á alþjóðamörkuðum verið hagstæð og aukinn ávinningur fallið til vegna fjárfestinga félagsins undanfarin ár í skipum og aflaheimildum, hátæknibúnaði við vinnslu og sölufélögum.
Loðnukvótinn skipti lykilmáli
Þann 1. október 2021 lagði Hafrannsóknastofnun til að gefin yrði út 904.200 tonna kvóti af loðnu á fiskveiðiárinu 2021/2022.
Engum loðnukvóta hafði verið úthlutað í tvö ár áður en kom að þessum risakvóta, sem var sá stærsti í tæpa tvo áratugi, þannig að um gríðarlega búbót var að ræða fyrir útgerðir sem fengu úthlutað loðnu og þjóðarbúið í heild.
Þrjú fyrirtækið fengu 56,5 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað. Ísfélag Vestmannaeyja, einkafyrirtæki að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar, fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent og Brim var í þriðja sæti með um 18 prósent.
Brim hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2014 og er eitt tveggja útgerðarfélaga sem er skráð þar. Hitt er Síldarvinnslan.
Brim er stærsta einstaka útgerðarfyrirtæki landsins og markaðsvirði þess er sem stendur 188,7 milljarðar króna og hefur hækkað um 84 prósent frá því í september í fyrra, eða skömmu áður en tilkynnt var um úthlutun á risakvóta á loðnu.
Langstærsti eigandi þess er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf. Það félag er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar.
Greiddi 22 prósent af arðgreiðslu í veiðigjöld
Brim hagnaðist um 11,3 milljarða króna á síðasta ári, sem er mikil aukning frá þeim 4,7 milljarða króna hagnaði sem félagið sýndi á árinu 2020.
Á grundvelli þess hagnaðar sem féll til í fyrra ákvað Brim að greiða hluthöfum sínum rúmlega fjóra milljarða króna í arð. Í ársreikningi þess kom sömuleiðis fram að Brim greiddi alls um 907 milljónir króna í veiðigjald á árinu 2021, ef miðað er við meðalgengi evru á árinu. Það er rúmlega tvöfalt það sem Brim greiddi í veiðigjöld árið áður.
Því námu veiðigjaldagreiðslur Brim til ríkissjóðs fyrir afnot af sjávarútvegsauðlindinni rúmlega 22 prósent af þeirri greiðslu sem félagið greiddi hluthöfum sínum í arð vegna síðasta árs og um átta prósent af hagnaði Brim á árinu 2021.