Bandaríska dómsmálaráðuneytið segir að brotist hafi verið inn í tölvupóstforrit tæplega þrjátíu embætta saksóknara í landinu á síðasta ári. Til verksins var notaður bandaríski hugbúnaðurinn SolarWinds en fyrirtækið sem hann selur hafði sjálft orðið fórnarlamb tölvuinnbrots á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki tölvuárásinni og ríkisstjórn Joe Bidens setti viðskiptaþvinganir á Rússland í apríl. Óttast er að tölvuþrjótarnir hafi með athæfinu komist yfir viðkvæmar upplýsingar, mögulega nöfn á uppljóstrurum.
BBC hefur eftir fyrrverandi saksóknara í Bandaríkjunum að tölvupóstar sem berast embættum saksóknara geti innihaldið mjög viðkvæmar upplýsingar og mikil trúnaðarmál. Hafi þrjótunum tekist að komast yfir nöfn uppljóstrara gæti það stefnt þeim í voða.
Upp komst um innbrotið í desember á síðasta ári en talið er að það hafi jafnvel hafist í maí í fyrra. Ljóst er að það er umfangsmikið og að mögulega hafi þeim sem að því stóðu tekist að komast inn í 18 þúsund tölvur opinberra aðila sem og einkaaðila.
Brosti var m.a. inn í tölvupóstsforrit starfsmanna fjögurra embætta saksóknara í New York, embætta sem hafa iðulega með höndum rannsóknir á stórum sakamálum, m.a. meintum fjársvikamálum.
Dómsmálaráðuneytið segir að nú þegar umfangið sé ljóst hafi allir sem mögulega urðu fyrir innbrotinu verið látnir vita og öryggi hert. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki greint frá því hvaða gögnum var stolið.