Fjöldi brottfara erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli var 110 þúsund í júlímánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fjölgunin er umtalsverð á milli ára, farþegarnir voru tæplega 46 þúsund í sama mánuði í fyrra svo aukningin nemur 141 prósenti. Fram kemur í tilkynningu frá Ferðamálastofu að leita þurfi allt aftur til febrúarmánaðar árið 2020 til þess að sjá álíka fjölda farþega í einum og sama mánuðinum. Fjöldinn eru engu að síður innan við helmingur þess sem hann var í júlí árið 2019.
Fjölgunin er einnig mikil á milli mánaða. Erlendir farþegar voru um 42.600 í júní síðastliðnum. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu gætir áhrifa kórónuveirufaraldursins enn í tölum yfir farþegafjölda. „Frá áramótum hafa um 184 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi sem er um 52% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega tæplega 387 þúsund,“ segir á vef Ferðamálastofu.
Ferðalög Íslendinga hafa einnig aukist en í júlí voru brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli um 31 þúsund talsins. Þær hafa ekki mælst svo margar síðan í febrúar í fyrra þegar þær voru um 34 þúsund. Engu að síður hefur brottförum á fyrstu sjö mánuðum ársins fækkað um 41,3 prósent frá því á sama tíma í fyrra, fjöldi þeirra á þessu ári eru um 63.500.
Ísland komið á rauðan lista hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna
Bandaríkjamenn voru nálega helmingur þeirra erlendu farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll í liðnum mánuði, fjöldi þeirra var rúmlega 51 þúsund. Bandaríkjamenn áttu 46,6 prósent erlendra brottfara í júlí. Næst á eftir komu Pólverjar með 10,2 prósent og svo Þjóðverjar með 7,9 prósent.
Í gær lenti Ísland á rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna sem þýðir að Bandaríkjamönnum er nú ráðið frá því að ferðast til landsins nema brýna nauðsyn beri til. Hvaða áhrif það kann að hafa á ferðavilja Bandaríkjamanna og ferðalög þeirra til landsins á eftir að koma í ljós en breytingin mun ekki hafa áhrif á ferðatakmarkanir milli Íslands og Bandaríkjanna. Eftir sem áður geta Íslendingar ekki ferðast til Bandaríkjanna, líkt og aðrir þegnar í löndum innan Schengen, nema með sérstakri undanþágu.
Ísland fékk rauðan lit á korti sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) í síðustu viku. Lönd þar sem nýgengi smita er á bilinu 200 til 500 fá rauðan lit á korti ECDC. Fari nýgengi smita yfir 500 fá lönd hins vegar dökkrauðan lit. Nýgengi smita hér innanlands er í dag 411.
Gistinætur á hótelum fjölgar í takt við komu erlendra ferðamanna
Sú fjölgun sem orðið hefur á komum ferðamanna sést einnig í tölum um gistinætur á hótelum en Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur um gistinætur ferðamanna. Hagstofan áætlar að gistinætur á hótelum í júlí hafi verið um 364.100 talsins (95% öryggismörk 349.900-378.300). Þar af voru gistinætur Íslendinga tæplega 110 þúsund og gistinætur útlendinga 254.500.
Þetta er töluverð aukning miðað við sama mánuð í fyrra, þá sérstaklega þegar horft er til gistinátta útlendinga. Alls varð 61 prósenta aukning í gistinóttum í júlímánuði milli ára, þær voru 226.400 í mánuðinum í fyrra. Gistinætur útlendinga fjölgar um 170 prósent milli ára en gistinóttum Íslendinga fjölgar um 17 prósent. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu var fjöldi gistinátta í nýafstöðnum júlí langtum minni en í sama mánuði árið 2019, fyrir kórónuveirufaraldur. Í júlí árið 2019 var fjöldi gistinátta á hótelum 507.800 en þar af voru gistinætur útlendinga 468.200.
Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að taka beri þessar bráðabirgðatölur með sérstökum fyrirvara, enda eigi sér stað miklar breytingar á framboði á hótelrýmum. Sú framboðsbreyting eykur mjög á óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta.