Stjórn Miðflokksins harmar þá ákvörðun Birgis Þórarinssonar að yfirgefa þingflokk Miðflokksins nú strax að loknum kosningum og áður en þing hefur verið sett.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar Miðflokksins sem send var á fjölmiðla í dag.
Birgir var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn fyrir tveimur vikum í Suðurkjördæmi en hann greindi frá ákvörðun sinni í dag að segja skilið við flokkinn og ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokks.
„Brotthvarf þingmannsins er fyrst og fremst áfall fyrir þann góða og öfluga hóp sem borið hefur Birgi á örmum sér sem oddvita flokksins í Suðurkjördæmi og unnið mikið og óeigingjarnt starf í kosningabaráttunni. Í því samhengi er ákvörðun þingmannsins mikil vonbrigði. Stjórn Miðflokksins færir flokksmönnum þakkir fyrir mikla og ósérhlífna vinnu í aðdraganda kosninga ekki hvað síst flokksmönnum í Suðurkjördæmi sem lögðu mikið á sig við að afla stefnu flokksins fylgis í kosningunum.
Flokkurinn metur framlag þessa fólks mikils og mun áfram berjast fyrir hugsjónum þess. Breytt skipan þingflokksins dregur ekki úr getu hans til að fylgja eftir þeim grunngildum og hugsjónum sem sameina okkur sem flokk,“ segir jafnframt í yfirlýsingu stjórnar Miðflokksins.
Segist aldrei hafa notið fulls trausts
Birgir skrifaði grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. Þar segir mann meðal annars að traust milli hans og forystu Miðflokksins sé brostið.
„Þessi staða rekur rætur sínar allt aftur til hins svokallaða Klausturmáls. Eins og kunnugt er gagnrýndi ég málið opinberlega og viðbrögð þeirra sem í hlut áttu. Ég gat þess jafnframt að ég óskaði engum þess að vera þolandi eða gerandi í máli sem skók þjóðina dögum saman og enn er minnst á í fjölmiðlum. Að baki standa fjölskyldur sem hafa átt erfitt vegna málsins. Ég gagnrýndi samflokksmenn mína sem í hlut áttu vegna þess að heilindi við eigin samvisku og sú ábyrgð að breyta rétt í þjónustu við kjósendur er fyrsta skylda þingmanna. Eftir gagnrýni mína á Klausturmálið naut ég aldrei fulls trausts innan hópsins og um tíma var beinlínis litið svo á að ég væri vandamálið,“ skrifar hann.
Hann segir jafnfram í greininni að við uppröðun á framboðslista Miðflokksins fyrr á þessu ári hafi hafist skipulögð aðför gegn sér af hálfu áhrifafólks innan flokksins. Mikið hafi verið á sig lagt, liðsauki kallaður til, nýjar reglur settar og ýmsum brögðum beitt til að koma í veg fyrir að hann yrði oddviti í Suðurkjördæmi.
„Miðflokkurinn beið afhroð í kosningunum og er í erfiðri stöðu. Margt fór úrskeiðis í kosningabaráttunni og í aðdraganda hennar. Mikið uppbyggingarstarf bíður forystunnar og flokksmanna, en endurreisnin mun aldrei takast nema full samstaða og traust ríki milli manna. Ljóst má vera að slíkt traust ríkir ekki í minn garð eins og ég hef rakið. Það er fullreynt. Einnig skal það sagt að flokksforystan hefur rofið traust mitt til hennar. [...] Minni baráttu ætla ég að halda áfram innan raða Sjálfstæðisflokksins. Þar er góður málefnalegur samhljómur og þar tel ég að kraftar mínir muni nýtast best,“ skrifar Birgir í Morgunblaðið.