Líkt og Kjarninn greindi frá í gær þá ákvað Taylor Swift, stærsta poppstjarna samtímans, að láta fjarlægja allar plötur sem hún hefur gefið út af tónlistarveitunni Spotify. Sú aðgerð er gríðarlegt áfall fyrir Spotify enda Swift á meðal vinsælustu listamanna hjá tugum milljóna notenda sem borga mánaðarlega fyrir aðgang að veitunni.
Nú greinir Business Insider frá því að ástæðan fyrir því að plötur Swift eru ekki lengur aðgengilegar á Spotify sé sú að Scott Borchetta, aðaleigandi og forstjóri útgáfufyrirtækis Swift, The Big Machine Label Group, sé að reyna að selja fyrirtækið sitt. Borchetta vill fá um 200 milljónir dali, um 24,4 milljarða króna, og er víst þeirrar skoðunar að væntanlegir kaupendur muni einungis horfa til þess hversu margar plötur fyrirtækið selji þegar þeir taka afstöðu til verðmiðans. Samkvæmt frétt Business Insider er hann þeirrar skoðunar að spilanir laga á Spotify muni ekki hafa nein teljandi áhrif á kaupverðið.
Þetta er viðmótið sem mætir notendum Spotify þegar þeir reyna að spila plötur og lög Taylor Swift.
Virkar til skamms tíma, veldur skaða til langs tíma
Því er Borchetta að fjarlægja tónlist Swift til að skapa skort á tónlist Swift og þar með ýta áhangendum hennar í átt að því að kaupa nýjustu plötu hennar 1989, sem kom út í síðustu viku, annað hvort á geisladisk eða í gegnum niðurhal á síðum á borð við iTunes, sem skilar meiru í vasann en hlustanir á Spotify.
Til skamms tíma virðist aðgerðarfræðin vera að virka. Talið er að ný plata Swift hafi selst í 1,3 milljónum eintaka fyrstu helgina eftir að hún kom út. Reynist það rétt er um að ræða mestu sölu á plötu á einni helgi í Bandaríkjunum frá árinu 2002, sem er ári áður en iTunes varð til og gerbylti tónlistargeiranum.
Universal Music Group, sem sér um drefingu á tónlist Swift fyrir útgáfufyrirtæki Borchetta, hefur reynt mikið að fá hann til að skipta um skoðun og telur nálgun hans vera mjög gamaldags. Til lengri tíma muni hún líka hafa neikvæð áhrif á vinsældir Swift, sem er gríðarlega vinsæl á Spotify. Fjórði hver notandi tónlistarveitunnar hefur streymt lagi eftir hana og lög hennar eru á um 20 milljón spilunarlistum.