Ný könnun Seðlabanka Íslands, sem gerð var á meðal markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, sýnir að þeir búast við því að stýrivextir muni hækka í 5,5 prósent á þriðja ársfjórðungi 2022 og verði í framhaldinu sex prósent á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Stýrivextir eru sem stendur 4,75 prósent og hafa hækkað um fjögur prósentustig frá því í maí í fyrra. Sú hækkun hefur haft mikil áhrif á afborganir á húsnæðislánum. Í nýlegri hagsjá Landsbankans var tekið dæmi af 40 milljóna króna láni á lægstu óverðtryggðu vöxtum. Vaxtabyrði þeirra hefur hækkað um 98 þúsund krónur frá því í maí í fyrra. Landsbankinn býst við því að vextir haldi áfram að hækka og að vaxtabyrðin muni aukast um 25 þúsund krónur í viðbót á þessu ári. Þá hefur hún farið úr 110 þúsund krónum á mánuði i 233 þúsund krónur á mánuði. Í nýlegri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið kom fram að rúmlega þriðjungur svarenda notar allt ráðstöfunarfé sitt á mánuði til að ná endum saman, er að ganga á sparnað eða safna skuldum.
Spá því að verðbólgan verði 5,8 prósent eftir ár
Alls var könnun Seðlabankans send til 31 markaðsaðila. Um er að ræða banka, lífeyrissjóði, verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, verðbréfamiðlara og fyrirtæki með starfsleyfi til eignastýringar. Alls svöruðu 24 þeirra könnuninni.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að stýrivextir Seðlabankans hækki í 5,5 prósent á yfirstandandi fjórðungi og að þeir hækki enn frekar í framhaldinu og verði sex prósent á fyrsta fjórðungi næsta árs. „Þá vænta þeir þess að vextir lækki aftur og verði 5,5 prósent eftir eitt ár og að þeir lækki í um 4,5 prósent að tveimur árum liðnum. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í apríl.“
Markaðsaðilar voru líka spurðir um afstöðu til taumhalds peningastefnu Seðlabankans. „Nokkur breyting var á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar en þeim fækkaði sem telja að taumhaldið sé of laust og er hlutfall þeirra 67% en hlutfallið var 79 prósent í apríl. Þá fjölgaði þeim sem telja taumhaldið hæfilegt og er hlutfall þeirra um 29 prósent samanborið við 17 prósent í síðustu könnun. Rúmlega fjögur prósent svarenda í könnuninni eru þeirrar skoðunar að taumhaldið sé of þétt sem er sama hlutfall og í apríl.“