Niðurstöður lýðheilsumats á fyrsta áfanga Borgarlínu benda til þess að lýðheilsulegur ávinningur af betri almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og aukinni notkun þeirra geti verið margvíslegur, ef rétt er haldið á spöðunum.
Lýðheilsumatið var kynnt fyrir borgarráði Reykjavíkur í liðinni viku, en það var unnið fyrir Reykjavíkurborg í samstarfi við Betri samgöngur, með styrk frá Lýðheilsusjóði.
Þetta er fyrsta svokallaða framsýna lýðheilsumatið sem framkvæmt er á Íslandi, sem þýðir að í fyrsta sinn er verið að gera tilraun til þess að meta líkleg áhrif framkvæmdar eða áætlana sem eru í bígerð á lýðheilsu.
Við gerð lýðheilsumatsins var horft var til þess hvernig fyrsti áfangi Borgarlínu gæti snert ólíka hópa. Skoðað var hvernig Borgarlína gæti nýst hinum almenna fullorðna íbúa í Reykjavík, börnum og ungmennum, fötluðu fólki, eldri borgurum, íbúum af erlendum uppruna, auk þess sem skoðað var með sértækum hætti hvernig Borgarlína gæti haft áhrif á starfsfólk og nemendur við HÍ og HR og starfsmenn Landspítala.
Við matið var byggt á fyrirliggjandi þekkingu um áhrif almenningssamgangna á lýðheilsu, auk þess sem rýnihópur sérfræðinga úr ólíkum áttum var skipaður og viðtöl einnig tekin við fatlaða einstaklinga, íbúa af erlendum uppruna og eldri borgara, auk annarra hagsmunaaðila „til að fá sem breiðustu mynd og fjölbreyttar raddir að borðinu“.
Markmiðið með þessari vinnu var að benda á þætti sem geta hámarkað lýðheilsulegan ávinning Borgarlínu og lágmarkað neikvæð áhrif.
Í niðurstöðukafla matsins segir að ljóst sé að aukin notkun á almenningssamgöngum hafi jákvæð áhrif á líkamlega heilsu og andlega sömuleiðis, en rannsóknir hafi sýnt að virkur ferðamáti og notkun á almenningssamgöngum geti dregið úr einkennum kvíða, streitu og þunglyndis.
Aukin ganga gæti komið í veg fyrir ótímabær dauðsföll
Hvað líkamlegu heilsuna varðar er einnig dregið fram að sú aukna ganga fólks sem fylgi aukinni notkun almenningssamgangna gæti haft í för með sér fækkun ótímabærra dauðsfalla.
Við það mat var stuðst við svokallaða HEAT-reiknivél (Health Economic Assessment Tool) frá Alþjóða heilbrigðismálastofnunni (WHO) og þær gefnu forsendur að með fjölgun ferða með almenningssamgöngum úr 35 þúsund daglegum ferðum árið 2019 upp í 53 þúsund daglegar ferðir á fyrsta rekstrarári Borgarlínu muni íbúar á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali ganga í 2,3 mínútur á dag til og frá almenningssamgöngum í stað 1,5 mínútna áður.
„Við þessa aukningu er, m.v. niðurstöður reiknivélarinnar, komið í veg fyrir 3 ótímabær dauðsföll á fimm árum. Óháð öðrum áhrifaþáttum, aðeins við þessa auknu göngu,“ segir í skýrslunni og það látið fylgja sögunni að þessi þrjú ótímabæru dauðsföll séu „verðlögð“ á 1,8 milljarða króna.
Einnig sýna niðurstöður lýðheilsumatsins að góðar og aðgengilegar samgöngur sé mikilvægar upp á félagslega samheldni og jöfnuð, að því leyti að þær geti komið í veg fyrir einangrun hópa á borð við eldri borgara, fatlaðs fólks og íbúa af erlendum uppruna.
Óvissa um hvernig myndi ganga að fá fólk til að breyta venjum
Fram kom við matið að umræðuhópar voru óvissir um hvernig hvernig myndi ganga að fá fólk til þess að breyta samgönguvenjum sínum, þar sem samgöngumenning væru mjög bílmiðuð á Íslandi. Hins vegar væri bæði vitað og áætlað að ákveðið hlutfall samfélagsins hefði áhuga á og myndi breyta samgönguvenjum sínum.
Því væri mikilvægt að hafa „nægt rými í huga við hönnun á stærri Borgarlínustöðvum fyrir fjölbreytta þjónustu líkt og verslun, veitingastaði, líkamsrækt, póstbox og jafnvel á sumum svæðum að huga að nálægð við leik- og grunnskóla“ enda hefði komið fram í ferðavenjukönnunum háskólanna og Landspítala að að helsta ástæða þess að fólk nýtti ekki almenningssamgöngur væri sú að það þyrfti að sinna öðrum erindum í ferðinni.
Í lýðheilsumatinu eru helstu niðurstöðurnar settar fram í formi ráðlegginga til þeirra sem koma að hönnun, framkvæmd og rekstri Borgarlínunnar. Á meðal þess sem þar segir er að mikilvægt sé að huga vel að aðgengileika biðstöðva, og ekki bara biðstöðvanna sjálfra heldur leiðinni sem fólk þarf að feta þangað gangandi.
Á borgarlínustöðvunum sjálfum skipti svo góð upplýsingagjöf miklu máli, auk góðrar lýsingar og hljóðvistar. Þá segir einnig að stór skýli sem veiti skjól allt árið um kring séu mikilvæg og sömuleiðis að aðgengi vagna verði þrepalaust.
Til viðbótar er nefnt að mikill kostur sé að hafa skanna til staðfestingar greiðslu fargjalds við alla innganga í vagnana, fyrir fólk sem fer hægar um í vögnunum eins og eldra fólk og fatlað fólk, auk þess sem þetta væri hentugt fyrir fólk með félagsfælni.
Niðurstöður lýðheilsumatsins eru heilt yfir sagðar „endurspegla mikilvægi þess að Borgarlínan sé fyrst og fremst hugsuð fyrir fólk, til að bæta samgöngumöguleika ásamt því að auka jöfnuð, sjálfstæði, bæta lýðheilsu og lífsgæði almennt á höfuðborgarsvæðinu“.