Ný könnun Seðlabanka Íslands, sem gerð var á meðal markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, sýnir að þeir telji að stýrivextir hafi náð hámarki í bili, en þeir eru nú 5,75 prósent og hafa hækkað um fimm prósentustig frá því í maí í fyrra. Þar kemur einnig fram að aðspurðir telji að stýrivextir fari að lækka á ný á þriðja ársfjórðungi 2023, verði 5,25 prósent í nóvember á næsta ári og 4,5 prósent í nóvember 2024. Um er að ræða lægri vexti en markaðsaðilarnir bjuggust við að myndu verða á næstu árum þegar síðasta könnun Seðlabankans var gerð í ágúst. Þá bjuggust þeir við því að stýrivextir yrðu komnir upp í sex prósent í byrjun árs 2023.
Hækkun stýrivaxta hefur leitt af sér miklar hækkanir vöxtum íbúðalána. Fyrir þá sem eru með breytilega vexti á slíkum getur það þýtt mikla hækkun á greiðslubyrði á mánuði. Í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans var til að mynda tekið dæmi af 40 milljóna króna óverðtryggðu jafngreiðsluláni á breytilegum vöxtum. Afborganir af því höfðu hækkað um 77 þúsund krónur frá júlí 2021 til sama mánaðar ári síðar. Síðan þá hafa vextir hækkað meira, og greiðslubyrðin sömuleiðis.
Það eru þó ekki allir með slík lán. Í minnisblaði Seðlabankans sem lagt var fram í fjárlaganefnd fyrr í þessum mánuði kom fram að greiðslubyrði allra íbúðalána hefði aukist að meðaltali um 13 til 14 þúsund krónur á mánuði frá byrjum árs 2020 og fram í ágúst 2022 hjá nýjum lántakendum, eða rúmlega 160 þúsund krónur á ári. Hægt er að lesa meira um ástæður þessa í fréttaskýringu Kjarnans hér.
Verðbólgan áfram töluvert frá markmiði
Alls var könnunin send til 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, Um er að ræða banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 33 aðilum og var svarhlutfallið því 92 prósent.
Markaðsaðilar voru líka spurðir um afstöðu til taumhalds peningastefnu Seðlabankans. Í svörum þeirra kom í ljós að þeim hefur fækkað mikið sem telja að það sé of laust. Hlutfall þeirra nú er 18 prósent. Það var 67 prósent í ágúst og 71 prósent í apríl.
Þeim sem töldu að taumhaldið væri hæfilegt fjölgaði úr 29 í 67 prósent frá því í ágúst. Í apríl töldu einungis 17 prósent að það væri hæfilegt. Um 15 prósent svarenda telja taumhaldið of þétt sem er nokkur aukning frá því í ágúst þegar hlutfallið var fjögur prósent.