Búið er að finna skrokk Air Asia flugvélarinnar sem fórst í Javahafi 28. desember síðastliðinn. Varnarmálaráðherra Singapúr, Ng Eng Hen, setti inn myndir af skrokknum á Facebook-síðu sína. Myndirnar voru teknar úr ómönnuðu könnunarfari sjóhersins í Singapúr.
Yfirvöldum í Indónesíu var greint frá þessu svo hægt væri að grípa til aðgerða og koma vélinni af hafsbotni.
Flugvélin hvarf af ratsjám 28. desember þegar hún var innan við hálfnuð á tveggja klukkustunda flugi frá Surabaya í Indónesíu til Singapúr. Flugmaðurinn hafði óskað eftir breytingu á flugleiðinni vegna óveðurs, en enn er ekki vitað nákvæmlega hvað varð til þess að vélin fórst. 162 voru um borð en hingað til hafa 48 lík fundist. Yfirmaður leitarinnar, Bambang Soelistyo, segir við BBC að ekki sé ljóst hvort lík hinna eru í skrokknum, en vonir standa til þess.
Stél vélarinnar fannst um helgina og svörtu kassarnir tveir fundust á mánudag og þriðjudag.