Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov, að sögn Alexander Bortnikov, yfirmanns rússnesku öryggislögreglunnar FSB.
Mennirnir heita Anzor Gubashev og Zaur Dadayev þeir eru báðir frá Kákasus-héraði að sögn lögreglunnar. Bortnikov greindi frá þessu í sjónvarpi í dag, sem þykir merki um að lögreglan vilji koma þeim skilaboðum á framfæri við almenning að hún taki morðrannsóknina mjög alvarlega.
Að sögn rússneskra fjölmiðla fannst bíllinn sem notaður var við morðið og var hægt að bera kennsl á mennina með sönnunargögnum sem fundust í bílnum, sem og með því að skoða símtalaskrár. Þá segja fjölmiðlar að myndir úr öryggismyndavélum hefðu verið nægilega skýrar til að hægt væri að bera kennsl á mennina tvo þar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur fordæmt morðið á Nemtsov opinberlega og sagðist ætla að fylgja rannsókn þess eftir sjálfur. Margir halda því þó fram að stjórnvöld í Rússlandi beri í raun ábyrgð á morðinu, meðal annars stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny.
Stjórnarandstæðingar hafa sagt að ekki sé nóg að finna og ákæra þessa tvo menn, heldur þurfi að finna þann eða þá sem skipulögðu morðið á Nemtsov.
Nemtsov var myrtur á föstudagskvöldi fyrir rúmri viku en hafði skipulagt mótmæli gegn stjórnvöldum tveimur dögum síðar. Mótmælin urðu að 50 þúsund manna minningarathöfn um hann.