Hlutfall kvenna í breska þinginu mun líklega batna talsvert í kosningunum í næstu viku, ef marka má kosningaspá breska blaðsins Guardian. Samkvæmt henni munu konur sigra í 198 af þeim 650 einmenningskjördæmum sem eru í Bretlandi. Ef þetta gengur eftir fjölgar konum í þinginu um fjórðung miðað við þetta kjörtímabil.
Fjölgunin myndi nema 50 þingkonum, en 148 konur sátu á þingi á síðasta kjörtímabili. Þrátt fyrir þessa fjölgun yrðu konur aðeins 30 prósent þingmanna. Á kjörtímabilinu sem er að ljúka er hlutfall kvenna 23 prósent.
Enginn flokkur nálægt jöfnum kynjahlutföllum meðal frambjóðenda
Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem eru í framboði til þingkosninganna. 74 prósent allra frambjóðendanna eru karlar, og 26 prósent konur. 650 kjördæmi eru í Bretlandi og í 102 þeirra er engin kona í framboði.
Enginn flokkanna í Bretlandi kemst nálægt því að bjóða fram jafnt hlutfall karla og kvenna til þingkosninganna í næstu viku. Flokkurinn sem kemst næst því eru Græningjar, en 37 prósent þeirra frambjóðenda eru konur. 36 prósent frambjóðenda Skosks þjóðarflokksins eru konur. Hjá Verkamannaflokknum eru 34 prósent frambjóðenda konur, en hjá öðrum flokkum er hlutfallið undir þrjátíu prósentum. Stjórnarflokkarnir tveir, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demókratar, eru með karla í tæplega 75 prósentum sæta. Hjá velska flokknum Plaid Cymru er fjórðungur frambjóðenda konur en Breski sjálfstæðisflokkurinn UKIP rekur lestina, aðeins 13 prósent frambjóðenda eru konur.
Verkamannaflokkurinn með hæst hlutfall
Miðað við kosningaspána kæmist Verkamannaflokkurinn næst því að vera með jöfn hlutföll karla og kvenna í þingflokki sínum. Samkvæmt spá Guardian verða 44 prósent þingmanna flokksins konur. Hlutfallið verður 35 prósent hjá Skoska þjóðarflokknum, 20 prósent hjá Íhaldsflokknum og fjögur prósent hjá Frjálslyndum demókrötum.
Aukningin hjá Verkamannaflokknum nemur tíu prósentum og hjá Íhaldsflokknum fjölgar konum um fjögur prósent. Frjálslyndir demókratar voru með lægsta hlutfall kvenna á síðasta kjörtímabili, fjórtán prósent. Nú þegar flokkurinn stendur frammi fyrir því að tapa nærri helmingi sæta sinna er útlit fyrir að aðeins ein kona verði í þingflokknum, á móti 26 körlum.