Burger King, ein stærsta skyndibitakeðja heims, hefur farið þess á leit við helsta keppinaut sinn, McDonald's, að keðjurnar opni saman veitingahús. Í heilsíðuauglýsingum á síðum bandarísku dagblaðanna The New York Times og The Chicago Tribune í dag leggur Burger King til að opnaður verði staður sem selur hamborgara að nafni McWhopper. Hann á að vera blanda af vinsælustu hamborgurum keðjanna, Big Mac og Whopper.
Allur ágóði af sölu McWhopper hamborgara á að renna til góðgerðarsamtakanna Peace One Day. Þau hafa það að markmiði að vekja athygli á Alþjóðlega friðardeginum, sem komið var á fót af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1981. Í tilefni af Alþjóðlega friðardeginum þann 21. september næstkomandi vill Burger King opna sameiginlegan veitingastað með McDonalds í einn dag. Samkvæmt tillögu Burger King verður hann staðsettur á bílastæði milli staðanna tveggja í Atlanta í Bandaríkjunum.
„Friðartillaga“ Burger King er nánar útlistuð á sérstakri heimasíðu, Mcwhopper.com.
Í umfjöllun New York Times um málið í dag segir að stjórnendur Burger King hafi ekki viljað hafa neitt eftir sér við vinnslu fréttarinnar og talsmenn McDonalds neituðu að tjá sig þegar leitað var viðbragða. Í yfirlýsingu kallaði yfirmaður Burger King þó eftir því að McDonald's taki þátt í að skrifa söguna og að fyrirtækin vekji með þessum hætti til umræðu um Friðardaginn þann 21. september næstkomandi.