Þær hafa fengið nóg af káfi, klúryrðum, dónalegum símaskilaboðum og boð um stefnumót: franskar blaðakonur sendu frá sér sameiginlega tilkynningu í vikunni, undir fyrirsögninni: Burt með krumlurnar. Þær segjast of lengi þurft að þola kynferðislega áreitni af hálfu karla í frönskum stjórnmálum. Nú sé nóg komið. Undir þetta skrifa fjörtíu þekktustu blaða- og fréttakonur Frakklands, sem starfa hjá stærstu og þekktustu fjölmiðlum landsins. Þær segjast stöðugt þurfa þola áreiti og niðurlægingu í starfi sínu og þá sérstaklega frá karlmönnum úr frönsku stjórnmálastéttinni – og nefna nokkur dæmi því til sönnunar:
Þekktur franskur þingmaður mætir blaðakonu í andyri franska þingsins og ávarpar hana með þessum orðum og líkir henni um leið við vændiskonu:
„Ah, þú ert mætt á þitt horn, sé ég, til þess að höstla nýjan kúnna“
Önnur blaðakona talar um fund þar sem þingmaður strauk hendi sinni í gegnum hár hennar á meðan aðstoðarmaður ráðherra spurði hana hvort hún væri ekki örugglega sólbrún á ÖLLUM kroppnum eftir sumarfríið.
Franskur stjórnmálamaður smellir mynd af sofandi blaðakonu um borð í flugvél, hallar sér svo að næsta manni og segir upphátt svo að viðstaddir heyra glöggt:
„Blaðamenn með stór brjóst eru bestir“
Mýmörg dæmi eins og þessi eru rakin. Á blaðamannafundum upplifa konur stöðugt niðrandi svör, augngotur og að lítið sé gert úr þeim; þær séu meðhöndlaðar og virtar eins og litlar, kjánalegar telpur.
Dólgurinn Dominique Strauss-Kahn
Það er susum ekkert nýtt að franskir stjórnmálamenn séu karlrembusvín, fjölþreifnir og klúrir. Holdgervingur þessa alls er auðvitað skúrkurinn Dominique Strauss-Kahn, fyrrum ráðherra og forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann var alla tíð þekktur fyrir að áreita konur, en féll svo loks af stalli sínum vegna ákærumála um nauðgun og vændissölu. Dregin hafa verið fram í dagsljósið gróf samskipti hans við blaðakonur, til að mynda tilraun til nauðgunar 2002. Franska blaðakonan, Tristane Banon, greindi frá því og líkti honum við trylltan, stjórnlausan apa á fengitíma. Hún lagði fram kæru á sínum tíma, en málið var látið falla niður vegna skorts á sönnunargögnum.
Þegar réttarhöldin fóru fram vegna nauðgunarmáls DSK, varð mikil umræða um hin karlægu gildi í frönskum stjórnmálum; misréttindi og óásættanlega hegðun franska stjórnmálamanna gangvart konum; margir vonuðust til þess að ástandið myndi ef til vill breytast í kjölfar umræðunnar og betri tímar væru jafnvel framundan. Það er öðru nær segja þær konur sem fara nú fyrir átakinu. Enn sé allt við sama heygarðshornið. Ekkert hafi breyst.
Frönsk stjórnmál eru karllæg
Strauss-Kahn er ekki eini franski stjórnmálamaðurinn sem sakaður hefur verið um kynferðislega áreitni og ruddaskap gagnvart konum. Það vakti mikla athygli í júlí 2012 þegar lítið var gert úr húsnæðismálaráðherra, Cécile Duflot, í sal franska þingsins þegar þingmaður sakaði hana um kvak og væl og benti sérstaklega á kjól hennar með fuglamynstri, sem hún var klædd í þá stundina. Önnur svipuð ummæli urðu tilefni til þess að ráðherra jafnréttismála ávarpaði þingið sérstaklega og húðskammaði það fyrir dólgsskap og karlrembu.
Frönsku blaðakonurnar benda þó á að margt hafi breyst til batnaðar hin síðustu misseri. Unga kynslóðin og yngri þingmenn séu almennt til fyrirmyndar. En þegar völdin séu enn í höndum miðaldra, hvítra karla sé ekki von á góðu. Þeir munu engu breyta. Á franska þinginu eru konur miklum í minnihluta eða um 27%. Í efri deild eða í lávarðadeildinni eru einungis um 22% konur. Hins vegar er kynjahlutfallið jafnt í ríkisstjórninni.