Búsetuúrræði Útlendingastofnunar og sveitarfélaganna þriggja sem þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir stofnunina á grundvelli samnings, Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðarbæjar, eru komin að þolmörkum.
Þetta kemur í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans en dómsmálaráðherrann, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fjallaði um erfiða stöðu í verndarkerfinu í síðustu viku.
Lagði hún fram minnisblað sem fjallaði „um þá erfiðu stöðu sem nú er uppi í verndarkerfinu þar sem þróun erlendis, séríslenskar málsmeðferðarreglur, COVID og fleiri atriði valda því að umsóknum fjölgar mikið, erfiðlega gengur að flytja þá af landi brott sem lögum samkvæmt eiga að yfirgefa landið og búsetuúrræði eru komin að þolmörkum. Bregðast þarf við því með einhverjum hætti og vakti dómsmálaráðherra athygli á þessu,“ segir í svari ráðuneytisins.
„Gengur erfiðlega“ að flytja einstaklinga sem fengið hafa synjun úr landi
Fram kemur í minnisblaðinu að frá miðju ári hafi fjöldi umsækjenda aukist mjög hratt. „Rúmlega 450 umsóknir hafa borist frá því í júní, þar af 124 í október sem er mesti fjöldi umsókna á einum mánuði síðan ágúst 2017. Langflestar umsóknir falla undir það sem kallast verndarmál, þ.e. umsóknir frá einstaklingum sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, og almenn efnismeðferðarmál, þ.e. umsóknir frá einstaklingum sem Ísland ber ábyrgð á að meta hvort þurfi á vernd að halda.“
Þá segir að þessi mál séu almennt lengi í vinnslu og dvelji umsækjendurnir þar af leiðandi lengur í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar. Séríslenskar reglur um þessi mál útskýri einnig þessa fjölgun, en hlutfall þessara mála hefur farið úr innan við 20 próent í 55 prósent á tveimur árum.
„Samhliða þessari fjölgun umsókna gengur erfiðlega að flytja einstaklinga, sem fengið hafa endanlega synjun á umsóknum sínum um vernd, vegna sóttvarnarkrafna viðtökuríkja. Þeir einstaklingar sem lögum samkvæmt eiga að yfirgefa landið neita ítrekað að undirgangast PCR-próf og komast þannig undan framkvæmdinni. Þar sem stjórnvöld hafa engin úrræði til að bregðast við stöðunni dveljast þessir einstaklingar hér á landi áfram með óskerta þjónustu,“ segir í minnisblaðinu.
Afleiðing framangreindrar stöðu, það er fjölgun umsókna og erfiðleikar við að framkvæma flutninga, hafi gert það að verkum að búsetuúrræði Útlendingastofnunar og sveitarfélaganna þriggja, sem þjónusta umsækjendur fyrir stofnunina á grundvelli samnings, eru komin að þolmörkum, eins og áður segir.