George Bush og Bill Clinton, tveir síðustu forsetar Bandaríkjanna, eru í sameiginlegu viðtali í TIME tímaritinu sem kom út í dag. Þar ræða þeir um forsetakosningar næsta árs, þar sem bróðir Bush, Jeb Bush, og eiginkona Clinton, Hillary Clinton, gætu att kappi.
„Ég held að mitt hlutverk verði að mestu að gefa ráð ef ég er beðinn um það,“ segir Clinton við TIME um stöðu hans í kosningabaráttu Hillary. „Og ég reyni að bjóða ekki einu sinni ráð nema ég sé spurður. En hún hefur verið góð í því að spyrja mig af og til.“
Þá ræðir hann um stjórnmálaumhverfið í Bandaríkjunum og segir það verulega flókið. „Fólki líkar ekki við neikvætt, sundrandi umhverfi en það verðlaunar slíkt samt reglulega í kosningum.“ Hægt sé að fá mikla athygli fjölmiðla en til þess þurfi frambjóðendur að rífa hvern annan í sig. „Það setur enn meiri þrýsting á fólk, eins og þig [við blaðamanninn] að gera okkur öll að tvívíðum teiknimyndum.“
Exclusive: Bill Clinton and George W. Bush reveal their plan for 2016 http://t.co/QDts2lT3Yd pic.twitter.com/kwHISRlA8J
— TIME.com (@TIME) July 23, 2015
Bush segir í viðtalinu að hann geti ekki sagt til um það hver fari með sigur af hólmi. „En ég get sagt þér hvað mun gerast. Það er almennt mynstur í þessu.“ Það verði krísur, það verði spurning um hver safni mestum fjármunum og margt fleira. „Á endanum verður það manneskjan sem er best til þess fallin að leiða flokk sinn sem hlýtur útnefninguna.“
„Hvaða máli skiptir það hvort röðin er Bush/Clinton/Bush/Obama/Clinton eða Bush/Clinton/Bush/Obama/Bush?“ spurði George Bush eitt sinn um framboð bróður síns í kjölfar framboðs Clinton.