Nýgerður samningur við Evrópusambandið um niðurfellingu ýmissa tolla verður ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en búið er að ganga frá nýjum búvörusamningi við bændur. Þetta staðfestir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra við Bændablaðið.
Gunnar Bragi segist hafa haft samráð við Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökin um málið og í kjölfar þess hafi hann ákveðið að leggja ekki fram tollasamninginn á Alþingi strax. Það sé einfaldlega rétt að við svo „mikilvæga samningagerð eins og búvörusamninga hafi menn heildarmyndina til lengri framtíðar uppi á borðinu í samskiptum ríkis og landbúnaðarins“.
Gunnar Bragi segir við Bændablaðið að tollasamningurinn við Evrópusambandið sé ásættanlegur. „Samningurinn veitir ákveðin tækifæri fyrir landbúnað á Íslandi til að þreifa fyrir sér á markaði í Evrópu með nýjar vörur, eins og til dæmis í kjöti. Á sama tíma svarar samningurinn brýnni þörf fyrir auknar innflutningsheimildir til ESB fyrir skyr en einnig fyrir lambakjöt. Hvað varðar heimildir ESB til innflutnings til Íslands tel ég að umfang þeirra sé ekki með þeim hætti að landbúnaðurinn eigi að óttast það. Íslenskur landbúnaður er sterkari en svo. Auk þess er gert ráð fyrir ríflegum aðlögunartíma og mikilvægt að hlusta eftir áhyggjum og hugmyndum bænda.“
Samningarnir við ESB fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum, að því er fram kom í tilkynningu frá ráðuneytinu í síðustu viku. Auk þess er samið um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsa innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta, sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Lækkun vöruverðs vegna samninganna getur numið tugum prósenta.
Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost. Til að mynda fá íslenskir framleiðendur Skyrs að flytja út tíu sinnum meira en áður inn á markaði í Evrópusambandslöndum.
Íslenskir bændur eru margir ósáttir við samningana um viðskipti með landbúnaðarvörur. Jón Magnús Jónsson, varaformaður Félags kjúklingabænda, sagði í samtali við Morgunblaðið í september að áhrif breytinganna geti orðið það mikil að innlendir framleiðendur neyðist til að bregða búi. Hann sagði samninginn „hálfgerðar náttúruhamfarir“ og segist ekki vera viss um að íslenskir stjórnmálamenn hafi vitað hvað þeir hafi verið að semja um. Í frétt blaðsins er einnig rætt við svínabónda sem lýsti yfir sömu áhyggjum í sinni grein. Í frétt RÚV í september var haft eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtakanna, að samningurinn hafi verið gerður án samráðs við bændur.