Í það minnsta einn maður vopnaður skotvopni hefur tekið gesti á kaffihúsi í gíslingu í Sidney, samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC. Samkvæmt frásögn BBC standa þrír einstaklingar við glugga á kaffihúsinu og er svartur fáni með arabísku letri í glugganum.
Mikill viðbúnaður er í borginni vegna þessa og hafa mörg hundruð lögreglumenn hafa girt af Martin Place og nágrenni í Sidney auk þess sem vinsælir ferðamannastaðir, eins og Óperuhúsið í Sidney, hafa verið rýmdir.
Þá hefur lofthelgi yfir Sidney einnig verið stýrt með þeim hætti, og flugumferð er ekki leyfileg yfir borginni.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem upplýsingar berast í gegnum staðfestar fréttir erlendra fjölmiðla.
Uppfært: Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, segir að stjórnvöld séu í viðbragðsstöðu vegna hryðjuverkaógnar og að alþjóðlegt samstarf um að ná með sem bestum hætti utan um það sem hefur gerst sé þegar komið af stað. Þá bað hann Ástrala um að halda ró sinni, allt yrði gerð til þess að frelsa gíslana. Um 20 manns eru inn á kaffihúsinu, Lindt Chocalet Coffee, en það er nærri ýmsum opinberum byggingum, þar á meðal skrifstofum þingmanna og þinghúsinu sjálfu.