Útflutningur Íslands gæti verið meiri í ár heldur en áður var búist við, þrátt fyrir að útlit sé fyrir að lengri tíma taki fyrir ferðaþjónustuna að taka við sér. Þetta segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í grein sinni í síðasta tölublaði Vísbendingar.
Í greininni fer Þórarinn yfir efnahagshorfur í kjölfar faraldursins, en þar segir hann að landsframleiðslan gæti hafa vaxið um ríflega 2 prósent milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samkvæmt spám Seðlabankans er útlit fyrir því að hagvöxturinn sæki enn frekar í sig veðrið þegar líður á árið og að hann muni verða að meðaltali 3,1 prósent á öllu árinu.
Stærsti liðurinn í hagvexti þessa árs yrði vöxtur útflutnings, en Þórarinn segir að útlit sé fyrir að meira verði flutt út en áður var búist við í ár. Seðlabankinn spáir nú að útflutningurinn aukist um 11 prósent á árinu og að aukninguna megi meðal annars rekja til bjartari horfa í sjávarútvegi og álútflutningi.
Aftur á móti segir Þórarinn að vöxtur ferðaþjónustunnar að lokum faraldursins gæti tekið lengri tíma heldur en áður var gert ráð fyrir, þar sem faraldurinn hafi reynst þrálátari í helstu viðskiptalöndunum okkar. Enn sé óvissa um hvenær alþjóðlegt farþegaflug kemst í eðlilegt horf og hvenær ferðatakmörkunum á milli Evrópu og Norður-Ameríku verði að fullu aflétt.
Samkvæmt honum var fjöldi erlendra ferðamanna hérlendis um miðjan maí einungis 7 prósent af þeim fjölda sem heimsótti landið á sama tíma árið 2019. Spár Seðlabankans gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna á árinu öllu verði um 660 þúsund, en það er áþekk fjölgun og Alþjóðasamaband flugfélaga spáir að flugfarþegum fjölgi á heimsvísu á árinu.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.