Þrátt fyrir að búist sé við tiltölulega snörpum viðsnúningi í framleiðslu gæti tekið langan tíma að ná niður atvinnuleysinu, meðal annars vegna hárra raunlauna og óvissu um framtíð ferðaþjónustunnar. Þetta skrifar Elís Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Samkvæmt Elísi er líklegt að fyrirtæki muni fyrst nýta betur þá framleiðslugetu sem er til staðar áður en þau taka að fjölga starfsfólki í miklum mæli í efnahagsviðsnúningnum að faraldrinum loknum. Þetta kæmi einkum fram í aukinni framleiðni vinnuafls og/eða lengri meðalvinnutíma. Á sama tíma er gert ráð fyrir að fólki á vinnualdri fjölgi töluvert á næstu árum, sem leiðir til þess að fleiri störf þurfi til að ná atvinnuleysinu niður.
Elís segir líka að langtímaatvinnuleysi, sem er nú meira en í kjölfar fjármálakreppunnar, gæti hægt á viðsnúningi á vinnumarkaðnum, þar sem færni glatast og líkur á að finna starf minnka við langa atvinnuleit. Því gefi hátt hlutfall langtímaatvinnulausra vísbendingar um að atvinnuleysi muni haldast stöðugt í hærri prósentu en áður.
Launahækkanir og óvissa um ferðaþjónustuna áhættuþættir
Elís bendir einnig á að vægi ferðaþjónustunnar í hagkerfinu gæti minnkað í framtíðinni, líkt og gerist venjulega þegar ein atvinnugrein verður fyrir framleiðniskelli. Þar sem hátt hlutfall starfsfólks í ferðaþjónustunni sé ósérhæft gæti tekið langan tíma fyrir þá að finna sér nýtt starf.
Þar að auki hafi kjarasamningsbundnar launahækkanir, sem séu úr takt við framleiðniþróun aukið kostnaðarþrýsting í atvinnugreinum líkt og ferðaþjónustunni, þar sem hlutfall láglaunastarfa sé hátt. Þetta gæti ýtt undir sjálfvirknivæðingu slíkra atvinnugreina, sem myndi hægja á nýjum ráðningum enn frekar.
Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi muni nema um 6 prósentum árið 2023, eða einungis 0,3 prósentustigum lægra en það var í fyrra. Til viðmiðunar var atvinnuleysi um það bil helmingi lægra árið 2018, eða um 3,1 prósent.
Elís bendir þó á að margir óvissuþættir séu bundnir þessari spá og að atvinnuleysi gæti minnkað mun hraðar ef ferðaþjónustan nær sér aftur á strik fljótt. Samkvæmt honum eru til að mynda fáar vísbendingar um að áhugi ferðamanna á Íslandi sem áfangastað hafi dvínað og framboð flugferða til og frá landinu eigi mögulega eftir að aukast enn frekar, meðal annars með tilkomu flugfélagsins PLAY.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.