Tölvuleikjafyrirtækið CCP fær alls 550 milljónir króna endurgreiddar frá skattinum í ár vegna rannsóknar- og þróunarstarfa sem unnin voru í fyrra, mest allra fyrirtækja á Íslandi. Þetta kemur fram í nýuppfærðum lista Skattsins yfir nýsköpunarfyrirtæki sem fengu skattafrádrátt.
Tvöfalt meiri en í fyrra
Samkvæmt tilkynningu sem stjórnarráðið birti á mánudaginn nema endurgreiðslur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar alls 10.431 milljónir króna í ár. Þetta er rúmlega tvöfalt meira en endurgreiðslurnar í fyrra, sem námu samtals 5.186 milljónum króna.
Stjórnarráðið segir þessa miklu aukningu vera meðal annars til komin vegna tímabundinnar hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli og hækkunar á frádráttarbærum kostnaði. Ef fyrirtækin skila hagnaði gengur þessi afsláttur upp í tekjuskatt, en annars er hann útgreiðanlegur að fullu.
Alls fá 264 lögaðilar stuðninginn í ár en þeir voru 201 á síðasta ári. Samkvæmt skattinum er hámark skattafrádráttar 385 milljónir króna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en 275 milljónir króna hjá stórum fyrirtækjum í ár.
CCP skráir í gegnum tvö félög
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hefur CCP, sem er skilgreint sem stórt fyrirtæki, hins vegar fengið allt að tvöfalda endurgreiðslu frá Skattinum á síðustu árum, þar sem fyrirtækið skiptir rannsóknar- og þróunarkostnaðinum af starfsemi sinni upp í tvö félög. Hið sama er uppi á teningnum í ár, CCP fær 275 milljóna króna frádrátt í gegnum félagið CCP ehf. og aðra jafnháa upphæð í gegnum félagið CCP Platform ehf.
Að CCP undanskildu fær upplýsingatæknifyrirtækið Origo mesta skattafrádráttinn í ár, en hann nemur alls 372 milljónum króna, ef talinn er með 44,5 prósenta eignarhlutur þess í fyrirtækinu Tempo. LS Retail er svo með þriðja mesta skattafrádráttinn í ár, en hann nemur alls 317 milljónum króna. Þar á eftir koma Össur og Alvotech, sem hvort um sig fær 275 milljónir króna í skattaafslátt vegna nýsköpunar.
Mestur frádráttur vegna hugbúnaðargerðar
Af þeim 38 félögum sem fengu skattafrádráttinn og eru tilgreindir á vef Skattsins fengu 10 þeirra endurgreiðslu vegna hugbúnaðargerðar. Þeirra á meðal voru CCP og LS Retail, en fyrirtækin Activity Stream, Men and Mice og GRID fá einnig yfir 100 milljónir króna í skattafrádrátt á þessum forsendum.
Sex af þessum fyrirtækjum fá aftur á móti skattafrádrátt vegna framleiðslu á tækjum, vélum og búnaði og er hann yfir 100 milljónum króna hjá þeim öllum. Mest fá Össur, Marel og Controlant, en Nox Medical, Skaginn og 3X Technology eru einnig nefndir.
Fyrirtæki fengu einnig skattafrádrátt vegna starfsemi sína á ýmsum öðrum sviðum, líkt og útgáfu tölvuleikja, heilbrigðisþjónustu, gagnavinnslu og upplýsingatækni. Íslenska netöryggisfyrirtækið AwareGO ehf. var einnig á listanum, en samkvæmt Skattinum fékk það endurgreiðslu vegna bókaútgáfu sinnar.
Fyrirvari: Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID, er hluthafi og stjórnarmaður í Kjarnanum með 17,68% eignarhlut.
Uppfært 22/11: Upplýsingum um skattafrádrátt til Origo og Tempo var bætt við.