Tölvuleikjafyrirtækið CCP fékk samtals 480 milljónir króna í skattafrádrátt vegna nýsköpunarverkefna á árunum 2019 og 2020.
Frádráttur fyrirtækisins var mun hærri en sá hámarksfrádráttur sem lög kveða á um að hvert fyrirtæki geti fengið vegna nýsköpunarverkefna sinna bæði árin, þar sem CCP sótti um hann í gegnum tvö einkahlutafélög, CCP ehf. og CCP Development ehf. Upplýsingar um þetta má finna á heimasíðu Skattsins.
Hámarksfrádráttur á hvert fyrirtæki
Samkvæmt lögum sem hafa verið í gildi frá árinu 2010 eiga nýsköpunarfyrirtæki rétt á skattafrádrætti. Fyrirtækin geta sótt um slíkan frádrátt hjá Rannís vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna, en stofnunin tekur svo ákvörðun um það hvort verkefnin uppfylli skilyrði um skattafrádrátt.
Hins vegar er hámark á því hversu mikill slíkur frádráttur getur verið. Í fyrra gat hann að hámarki orðið 180 milljónir króna, en árið 2019 nam hámarkið 90 milljónum króna. Hins vegar, þar sem CCP sótti um skattafrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna í gegnum tvö félög var frádráttur fyrirtækisins samtals 300 milljónir króna í fyrra og 180 milljónir króna árið 2019. Skattafrádráttur CCP var því tvöfalt meiri en lögbundið hámark á hvert fyrirtæki árið 2019 og helmingi hærra en hámarkið árið 2020.
Telur styrkinn eiga við hvert verkefni
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, sagði í samtali við Kjarnann að þessar tvær umsóknir fyrirtækisins eigi sér einfalda útskýringu, þar sem CCP vinni að tveimur rannsóknar- og þróunarverkefnum hérlendis. Báðar umsóknirnar séu lagðar fram með gagnsæjum hætti og í samræmi við reglur, auk þess sem þær séu yfirfarnar af Rannís, sem samrýmir alla kostnaðarliði.
Samkvæmt Eldari mætti bera þennan skattafrádrátt saman við styrki til kvikmyndageirans að einhverju leyti, þar sem styrkjum er úthlutað eftir verkefnum en ekki eftir fyrirtækjum.
Líkt norska kerfinu
Davíð Lúðvíksson, sérfræðingur hjá Rannís, segir hins vegar í samtali við Kjarnann að hámarkið sé hugsað á hvert fyrirtæki. Þetta staðfestir einnig embætti ríkisskattstjóra í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Aðspurður um mat hans á því hvernig þetta hámark sé skilgreint, segir hann að sú ákvörðun sé fyrst og fremst í höndum löggjafans, svo lengi sem það rúmist innan þess heimildarramma sem viðkomandi stuðningskerfi byggir á.
Samkvæmt Davíð er hönnun stuðningskerfa til nýsköpunar nokkuð mismunandi á milli OECD-ríkja, en kerfið hérlendis sé að einhverju leyti sambærilegt því norska. Hann bætir við að mikil samkeppni sé í gangi milli landa um að laða til sín fólk og fyrirtæki í nýsköpun með skattalegum hvötum. Slík stuðningskerfi innan aðildarríkja EES þurfa þó öll að fara í gegnum samþykktarferli hjá ESA, sem er eftirlitsstofnun EFTA-ríkjanna, sem hefur eftirlit með að ríkisaðstoðarreglur og undanþáguheimildir í tengslum við slík kerfi séu virtar í hverju aðildarríki EES.
Ekki vanþörf á eftirliti
Ríkisskattstjóri hafði ýmsar athugasemdir við framkvæmd nýsköpunarstyrkjanna í umsögn sem hann skilaði til efnahags- og viðskiptanefndar alþingis fyrr í ár. Samkvæmt umsögninni er ekki vanþörf á eftirliti með þessum málaflokki, þar sem almennur rekstrarkostnaður er oft talinn fram sem rannsóknar- og þróunarkostnaður. Að mati Skattsins væri því mikilvægt að styrkja regluverkið sem snýr að þessum styrkjum ef hið opinbera hyggst auka umfang þeirra til frambúðar.