Dylann Storm Roof, sem ákærður er fyrir að hafa skotið níu svarta kirkjugesti í Charleston til bana með köldu blóði þann 17. júní síðastliðinn, hefur verið ákærður fyrir þrjár manndrápstilraunir að auki. Þetta tilkynnti saksóknari málsins í dag, en fréttamiðillinn TIME greinir frá málinu.
Skotárásin átti sér stað við biblíukennslu þegar Roof, sem er 21. árs, stóð skyndilega upp og hóf að skjóta á viðstadda. Níu lágu í valnum eftir árásina, en hún er rakin til djúpstæðs kynþáttahaturs. Nokkrar kirkjur svartra hafa verið brenndar til grunna í Suður-Karólínu eftir að voðaverkið átti sér stað.
Dylan Storm Roof hefur verið ákærður fyrir að myrða níu kirkjugesti, og vopnalagabrot, en ákærurnar er varða tilraun til manndráps stafa af kirkugestum sem lifðu af árásina. Hann á að mæta aftur fyrir dómara í október.
Alríkisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki upplýst um hvort Roof verði sóttur til saka fyrir hatursglæp, en embættismenn bandaríska dómsmálaráðuneytisins hafa látið hafa eftir sér að voðaverkin uppfylli skilyrði fyrir slíkri saksókn.