Fyrrverandi þáttastjórnendur bresku bílaþáttanna Top Gear hafa skrifað undir samning við vefrisan Amazon og munu sjá um bílaþætti á sérstakri vefrás fyrirtækisins. Eftir að BBC sleit samningi sínum við einn hefur teymið fengið að velja úr tilboðum annara sjónvarpstöðva.
Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May sáu um Top Gear-þættina á BBC í 12 ár þangað til í mars í ár, þegar Clarkson var sagt upp vegna ítrekaðra brota í starfi. Hann hafði þá verið ávíttur nokkrum sinnum fyrir fúkyrði í þáttunum og kynþáttaníð, en eftir að hann kýldi einn framleiðenda þáttanna var hann látinn fara.
May og Hammond sögðu starfi sínu lausu í kjölfarið og hafa síðan, ásamt Clarkson, verið að undirbúa endurkomu í sjónvarp annarstaðar en á BBC. Þremenningarnir höfðu verið orðaðir við ITV og Netflix auk fleiri sjónvarpstöðva.
„Mér líður eins og ég hafi klifið úr tvíþekju og yfir í geimskip,“ sagði Clarkson um nýja vinnustaðinn. May þykir formið einnig nýstárlegt: „Við erum orðnir hluti af nýrri öld snjallsjónvarpa. Kaldhæðið, ekki satt?“
Þættirnir munu ekki heita Top Gear enda er það heiti í eigu BBC og var raunar til löngu áður en þeir Clarkson og Hammond tóku við stjórn þáttarins árið 2002. Ekki hefur verið ákveðið hvað þættirnir á Amazon munu heita.
Þættirnir á vefnum verða aðeins aðgengilegir áskrifendum að Amazon Prime, þjónustu sem er ekki ólík Netflix og geymir stórt safn kvikmynda og sjónvarpsþátta. Amazon framleiðir einnig fleiri þætti, sem hafa meira að segja hlotið Golden Globe-verðlaun.
Top Gear heldur áfram
Síðan þríeykið tók við stjórn Top Gear hafa þættirnir verið ein helsta söluvara BBC til annara sjónvarpstöðva víðsvegar um heiminn og skilað gríðarlegum tekjum. Aðrar sjóvarpstöðvar, til dæmis í Bandaríkjunum og Ástralíu, hafa einnig framleitt Top Gear-þætti til hliðar við upprunalegu bresku þættina.
Ákvarðanir stjórnar BBC í máli Top Gear og Jeremy Clarkson hafa alltaf verið umdeildar, enda kosta þættirnir mikið auk þess sem vinsældir þáttana eru beintengdar persónunum sem kynna þá.
Clarkson hafði þess vegna ítrekað komist upp með kynþáttaníð og fúkyrði gagnvart konum og stjórnmálamönnum í þáttunum þrátt fyrir mikinn þrýsting um að honum verði sagt upp. Líkamsárás á starfsmann BBC gerði hins vegar útslagið.
Clarkson hefur beðist velvirðingar á flestu því sem hann hefur gert af sér í sjónvarpi. Hann útskýrir líkamsárásina sem afleiðingu álags vegna vinnu og að hann hafði nýlega verið greindur með krabbamein, sem hann vissi ekki hvort væri góðkynja eða illkynja.
Þegar hefur nýr aðalkynnir þáttanna á BBC verið kynntur. Það er fjölmiðlamaðurinn Chris Evans sem undanfarið hefur starfað sem útvarpsmaður. Enn er leitað að tveimur þáttastjórnendum til viðbótar. Nýverið var Formúlu 1-ökuþórinn Jenson Button orðaður við þættina, en hann er samningsbundinn McLaren-liðinu í Formúlu 1 út árið 2016.