Stærstu styrktaraðilar Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) lýstu því yfir í gær að þau krefjist tafarlausrar afsagnar Sepp Blatter, forseta sambandsins, vegna þeirra spillingarmála sem hann er talinn tengjast. Um er að ræða alþjóðlegu risafyrirtækin Coca-Cola, McDonalds, Visa og Anheuser-Busch, eiganda Budweisier-vörumerkisins. Reuters-fréttastofan greinir frá.
Yfirlýsingar fyrirtækjanna, sem innihalda allar sambærilegt orðalag, voru sendar út viku eftir að yfirvöld í Sviss tilkynntu að þau hafi byrjað formlega sakamálarannsókn á Blatter. Í yfirlýsingu Coca-Cola sagði meðal annars: "Á hverjum degi sem líður þá heldur ímynd og orðspor FIFA áfram að skaðast[...]FIFA þarf á alhliða umbótum að halda". Í yfirlýsingu McDonalds sagði að atburðir liðinna vikna hefðu grafið frekar undan orðspori FIFA og trausti almennings á leiðtogasambandsins.
Blatter, sem er orðinn 79 ára gamall og hefur stýrt FIFA í 17 ár, brást við með því að segja að hann muni ekki segja af sér. Það væri ekki í þágu FIFA að gera það.
Ætlar ekki að hætta fyrr en í febrúar
Blatter var fyrr á þessu ári endurkjörinn forseti FIFA þrátt fyrir að hreyfingin hafi orðið fyrir miklum þrýstingi um að gera það ekki í ljósi aragrúa spillingarmála sem upp hafa komið innan þess á undanförnum misserum. Spillingarmálunum fjölgaði enn frekar í kjölfar kosninganna og á endanum tilkynnti Blatter að hann myndi hætta, en ekki fyrr en í febrúar á næsta ári. Hann telur sig enn geta unnið aftur tapað orðspor á þeim tíma og segir engan betri til að endurvekja tiltrú almennings og styrktaraðila á FIFA.
Blatter hefur falið sig á bakvið það að hann hafi sjálfur ekki verið til rannsóknar, þótt flestir nánustu samstarfsmenn hans hafi verið það og hin meinta spilling sem þrífst innan FIFA hafi gerst á hans vakt.
Talinn hafa mútað Platini
Þetta breyttist allt í síðustu viku þegar yfirvöld í Sviss, þar sem höfuðstöðvar FIFA eru staðsettar, tilkynntu að þau séu búin að hefja rannsókn á því hvort Blatter hafi gerst sekur um lögbrot.
Rannsóknin á Blatter er hluti af viðamikilli rannsókn á FIFA og spillingu innan sambandsins.
Gerð var húsleit í höfuðstöðvum FIFA í Zurich í Sviss og gögn voru tekin af skrifstofu Blatter.
Annars vegar er Blatter grunaður um að hafa skrifað undir samning við knattspyrnusambandið í karabíska hafinu, þar sem Jack Warner var þá forseti, en samningurinn er sagður hafa verið FIFA í óhag. Þá sé líka grunur um að við innleiðingu þessa samnings hafi Blatter brotið gegn skyldum sínum og tekið ákvarðanir sem sköðuðu hagsmuni FIFA.
Þetta er talið tengjast sjónvarpsréttindasamningum sem sýndu fram á að Blatter samþykkti að selja réttindi til Warner, sem var einnig áhrifamikill innan FIFA og hefur verið til rannsóknar vegna spillingar, undir markaðsvirði.
Til viðbótar við þetta er Blatter sakaður um að hafa greitt „óheiðarlega“ greiðslu upp á tvær milljónir svissneskra franka til Michel Platini, sem er forseti Evrópska knattspyrnusambandins UEFA, og einn þeirra sem vill taka við af Blatter hjá FIFA. Þessi greiðsla er sögð skráð sem greiðsla fyrir vinnu sem hafi átt sér stað frá 1999 til 2002, en greiðslan átti sér stað árið 2011. Líklegt er talið að þetta mál muni koma í veg fyrir að Platini geti boðið sig fram til forseta FIFA á næsta ári.