Skóframleiðandinn Converse, sem er í eigu fatarisans Nike, hefur stefnt 31 smásölukeðju, meðal annars Walmart, Kmart, Skechers og H&M, fyrir að framleiða og selja eftirlíkingar af hinum goðsagnakenndu "Chuck" strigaskóm. Huffington Post segir frá málinu.
Í fréttatilkynningu sem Converse sendi fjölmiðlum vegna málsins er haft eftir Jim Calhoun forstjóra fyrirtækisins að "Chuck Taylor" strigaskórnir hafi notið fádæma vinsælda til fjölda ára, og á síðustu hundrað árum hafi Converse selt um milljarð skópara af þessum vinsælu strigaskóm víða um heim. "Við fögnum heiðarlegri samkeppni, en teljum að önnur fyrirtæki hafi engan rétt til þess að herma eftir sögufrægu útliti "Chuck" strigaskósins."
Converse All-Star strigaskórnir komu fyrst á markað árið 1917. Í upphafi þriðja áratugarins var nafni þeirra breytt í Chuck Taylor All-Stars eftir samnefndum körfuboltamanni, sem varð mikill talsmaður þeirra, og ruddi þar með brautina fyrir skóframleiðendur að merkja vörur sínar frægum einstaklingum við markaðssetningu þeirra.
Í upphafi var saumað stjörnulaga merki á skóna til að vernda ökkla körfuboltaleikmanna, en strigaskórnir með gúmmítána þróuðust úr því að vera fyrst og síðast íþróttaskór yfir í það að verða gríðarlega vinsælir á meðal gruggrokkara og pönkara á níunda áratugnum.
Í stefnu Converse, sem var þingfest fyrir dómstólum í New York í síðustu viku, er því haldið fram að framleiðsla eftirlíkinga á vörum fyrirtækisins hafi snaraukist síðan árið 2008. Fyrirtækið, sem sendi einnig kvörtun til framkvæmdastjórnar Alþjóðlega verslunarráðsins vegna málsins, krefst skaðabóta úr hendi hinna stefndu sem verði ákvarðaðar fyrir dómstólum. Miðað við útbreiðslu eftirlíkinga af Chuck strigaskónum, má reikna með að skaðabæturnar muni nema himinháaum fjárhæðum, fallist dómstólar á málatilbúnað Converse.
Walmart, Kmart og H&M urðu ekki við beiðni Huffington Post um viðbrögð við stefnu Converse. Þá sagði talskona Skechers skóframleiðandans að fyrirtækinu hafi ekki enn borist stefna Converse, og því muni fyrirtækið ekki tjá sig að svo stöddu.