Veðbankar hafa verið mjög góðir í að spá fyrir um hvaða lagahópur lendir í þremur efstu sætunum í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Því sé ekki séns að Daði Freyr og Gagnamagnið komi til með að vinna keppnina fyrir Íslands hönd í ár, þar sem honum er spáð sjötta sætið.
Þetta skrifar Eiríkur Ragnarsson, hagfræðingur, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út í gær. Í henni eru vinningslíkur allra keppenda í Eurovision samkvæmt veðbönkum bornar saman við árangur þeirra síðustu fimm skiptin sem keppnin hefur verið haldin.
Samkvæmt samanburði Eiríks eru veðbankarnir ekkert sérstaklega góðir í að spá nákvæmlega fyrir um vinningssætið, auk þess sem þeir eru mjög lélegir í að spá fyrir um sætaröðina hjá öllum keppendunum. Hins vegar séu þeir mjög góðir að spá fyrir um það hvaða hópur lendi í fyrstu þremur sætum keppninnar.
Eiríkur segir það ekki hafa áður gerst, miðað við hans gögn, að lag utan fyrstu þriggja sæta veðbankanna hafi unnið Eurovision. „Sem þýðir að við getum hætt að láta okkur dreyma og notið þess að horfa á keppnina vitandi það að Daði á ekki séns,“ bætir hann við.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér