Það er óhætt að segja að undanfarið hafi hassið svifið yfir vötnum hjá Héraðsdómi Kaupmannahafnar. Frá áramótum hafa 83 verið dæmdir til fangelsisvistar í umfangsmesta hassölumáli í sögu Danmerkur. Flestir dómanna féllu í liðinni viku.
Danska lögreglan tók daginn snemma 13. mars í fyrra. Í rauðabítið þann morgun handtóku laganna verðir áttatíu og fjóra menn, flesta í Kaupmannahöfn og nágrenni. Á fréttamannafundi sem lögreglan hélt um hádegisbil þennan sama dag kom fram að handtökurnar hefðu átt sér langan aðdraganda og verið mjög vel undirbúnar. Fjölmennt lögreglulið tók þátt í aðgerðinni, sem hjá lögreglunni gekk undir nafninu Norðurljósið. Á fréttamannafundinum var frá því greint að alls hefði lögreglan gert húsleitir á 150 stöðum í Kaupmannahöfn og nágrenni þennan morgun. Ekki hefur verið upplýst um fjölda lögreglumanna sem voru að störfum þennan morgun en danskir fjölmiðlar telja að þeir hafi verið vel á annað þúsund. Hinir handteknu áttu það allir sameiginlegt, að mati lögreglunnar, að tengjast sölu á hassi í frístaðnum Kristjaníu.
Margra ára aðdragandi
Á áðurnefndum fréttamannafundi kom fram að lögreglan hefði árum saman fylgst með „starfseminni“ í Kristjaníu. Það er á margra vitorði að hass hefur lengi verið selt í Kristjaníu en lögregla og yfirvöld hafa lengst af látið það að mestu afskiptalaust enda að langmestu leyti smákaupmenn sem hafa sinnt þessum viðskiptum. Fyrir nokkrum árum fóru hinsvegar svokölluð mótorhjólasamtök að troða sér inn á þennan markað. Ástæðurnar eru einkum þær að lögreglan hefur um árabil þrengt að (vafasamri) starfsemi þeirra en ekki þó síður að margir koma í Kristjaníu (fjórði fjölsóttasti ferðamannastaður landsins) og af svæðinu fer það orð að þar sé fleira til sölu en filterslaus Camel.
Þarna var því eftir miklu að slægjast en lögregla telur að árið 2012 hafi verið selt hass fyrir rúman milljarð danskra króna (ca. 20 milljarða íslenska). Þetta eru miklir peningar, það eru mótorhjólasamtökin fyrir löngu búin að koma auga á og hafa reynt að sölsa undir sig þennan markað og bola burt smákaupmönnunum sem fyrir voru. Þrátt fyrir að íbúar Kristjaníu hafi ekki verið hrifnir af þessari „þróun“ hafa þeir lítið getað aðhafst. Flestir íbúar frísvæðisins kæra sig lítt um þessi „mótorhjólasamtök“ en vilja bara fá að lifa sínu lífi. Vita sem er að vélhjólagengjunum fylgja iðulega átök og illindi og rokkararnir, eins og þeir eru kallaðir, engar friðardúfur. Þess vegna fögnuðu margir „Kristjanittar“ því að lögreglan beindi sjónum sínum að svæðinu.
Lögregla haldlagði gríðarlegt magn fíkniefna í aðgerðum sínum í Kristjaníu þann 13. mars á síðasta ári.
Sölumenn, milliliðir, peningamenn
Í september 2012 var stofnuð sérstök deild innan lögreglunnar, Task Force Pusherstreet, kennd við verslunargötuna í frístaðnum. Það var gert þegar yfirstjórn lögreglunnar varð ljóst hve gríðarlega stórt mál var um að ræða. Síðan þessi sérdeild var stofnuð hafa um þrjú þúsund manns hlotið dóma (nær alltaf sektir) fyrir að kaupa hass. Jafnframt hefur sérdeildin frá stofnun lagt hald á hass að andvirði 180 milljóna króna (ca. 3,6. milljarða ísl. króna) á sölustöðunum í Kristjaníu.
Lögreglan hefur beitt margs konar aðferðum meðal annars hlerað síma, fylgst með ferðum fólks, óeinkennisklæddir lögregluþjónar farið um Kristjaníusvæðið og fylgst með sölustöðunum mánuðum saman. Í þeim áttatíu og fjögurra manna hópi sem handtekinn var 13. mars í fyrra voru sölumenn (sem kannski ætti frekar að kalla afgreiðslumenn), milliliðir og peningamenn sem staðið hafa á bakvið þessa starfsemi og hirt stærstan hluta ágóðans.
Dómarnir
Alls hafa fallið 83 dómar í þessu stærsta hassölumáli Danmerkur. Langflestir, eða 65, í liðinni viku en hinir á síðastliðnum tveimur mánuðum. Einn sem ákærður hafði verið lést í fangelsi fyrir nokkrum vikum, áður en dómur í máli hans féll. Dómarnir eru misþungir, sá sem þyngstan dóm hlaut á að afplána fimm og hálft ár. Átta hinna dæmdu áfrýjuðu á staðnum, hinir tóku sér lögboðinn umhugsunarfrest. Fulltrúi ákæruvaldsins lýsti ánægju með niðurstöðuna og nefndi sérstaklega að tekist hefði að sýna fram á sök margra svokallaðra „bakviðmanna,“ það er að segja þeirra sem stjórnuðu og skipulögðu þessa umfangsmiklu starfsemi.
Ár liðið frá handtökunum
Rúmt ár leið frá handtökunum þangað til dómar féllu. Þótt það kunni að virðast langur tími segja talsmenn lögreglunnar að miðað við umfangið sé eitt ár í raun mjög skammur tími. Það sé meira en að segja það að yfirfara og rannsaka gögn í slíku máli þar sem hundruð manna koma við sögu. Lögreglan hefur ekki viljað greina nákvæmlega frá öllu því sem hald var lagt á, segir að þrátt fyrir að dómar séu fallnir sé margt fleira í gögnunum sem lögreglan hefur í sinni vörslu.
Hassið enn til sölu í Pusher Street
Yfirmaður Task Force Pusherstreet sagði í viðtali fyrir nokkrum dögum að því færi fjarri að búið væri að uppræta hassviðskiptin í Kristjaníu, þar væri enn mikið verk óunnið og sérdeildin myndi starfa áfram. Það væri hinsvegar ljóst að glæpagengin hefðu orðið fyrir þungu höggi.
Lögreglumenn á vettvangi í Kristjaníu í marsmánuði 2014.