Dæmi eru um að fólk hafi fiffað ýmislegt til þess að geta sýnt fram á nægilega greiðslugetu og fá afgreitt lán. Því miður hafi lánveitendur tekið þátt í því, sagði Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, í örfyrirlestri á pop-up ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík í síðustu viku. Erindi hennar fjallaði um lántöku og mikilvægi þess að lántakar hafi efni á henni. Að því loknu fékk hún spurningu úr sal um ábyrgð lánveitanda.
„Það er búið að gera ýmislegt í ábyrgð lánveitanda. Hann þarf að gera lánshæfismat þegar hann veitir lán og ef það er yfir tvær milljónir þá þarf að gera greiðslumat, auk þess sem gera þarf ráð fyrir að mögulega komi eitthvað upp á,“ sagði Svanborg en fjallað var nánar um erindið hér.
Því miður séu þó einnig dæmi um að fólk „fiffi“ stöðuna til þess að fá lán, og að lánveitendur hafi tekið þátt í því. Svanborg nefndi sem dæmi að fólk fái lánaða peninga til skamms tíma og þykist þannig eiga meiri peninga en það raunverulega á, eða segist hafa verktakatekjur sem séu óraunverulegar. „Þetta er ábyrgð á báða bóga,“ sagði hún.
Tengt efni:
Ekki taka lán ef þú átt ekki efni á því.