Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ætla að gefa það út þegar hann losnar úr sóttkví hvort hann verði í framboði fyrir Samfylkinguna í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í vor, en það verði vonandi um helgina eða strax eftir helgi. Frá þessu segir hann í færslu á Facebook í dag.
Þar segir hann einnig frá því að hann og fjölskylda hans hafi verið í sóttkví eða einangrun undanfarna daga, í kjölfar þess að eitt barnanna greindist með kórónuveirusmit. „Vonum að það versta sé afstaðið og aðrir hafa hingað til ekki smitast. Öllum líður vel,“ skrifar Dagur.
Hann segir nokkra fjölmiðla hafa verið í sambandi í dag og í gær til að spyrja um framboðsmál hans, en Dagur hafði áður sagt að hann hygðist gera grein fyrir þeim eftir hátíðar.
„Margir hafa verið í sambandi við mig um þau mál að undanförnu sem ég er þakklátur fyrir. Ég vona að það mæti skilningi að ég muni ekki segja frá niðurstöðu minni fyrr en sóttkví lýkur sem verður vonandi um helgina eða strax eftir helgi,“ skrifar Dagur, sem hefur verið borgarstjóri í Reykjavík óslitið frá 2014.
Dagur hefur setið í borgarstjórn lengur en nokkur annar sem þar situr nú, eða frá árinu 2002, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Áður en hann varð borgarstjóri árið 2014 hafði hann einnig verið borgarstjóri í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008.
Eina skiptið á ferli Dags sem hann hefur setið í minnihluta er kjörtímabilið 2006 til 2010, að undanskildum áðurnefndum 100 dögum, en miklar sviptingar voru í borgarstjórn á þeim árum og alls fjórir meirihlutar myndaðir.
Samfylkingin hefur ákveðið að bindandi flokksval verði notað til að velja í efstu sex sætin á lista flokksins í Reykjavík, en það mun fara fram 12.-13. febrúar. Atkvæðisrétt í flokksvalinu hafa bæði flokksmenn og stuðningsmenn flokksins, eldri en 16 ára.
Það fór þá aldrei svo að ég eða fjölskyldan færum í gegnum faraldurinn án þess að lenda í sóttkví. Allt er einu sinni...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Wednesday, January 5, 2022