Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri í Reykjavík næstu 18 mánuði. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, tekur svo við embættinu og gegnir því til loka yfirstandandi kjörtímabils, sem lýkur vorið 2026.
Dagur, sem er oddviti Samfylkingarinnar, hefur verið borgarstjóri í Reykjavík síðastliðin átta ár. Dagur hefur setið í borgarstjórn lengur en nokkur annar sem þar situr nú, eða frá árinu 2002, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Áður en hann varð borgarstjóri árið 2014 hafði hann einnig verið borgarstjóri í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008.
Eina skiptið á ferli Dags sem hann hefur setið í minnihluta er kjörtímabilið 2006 til 2010, að undanskildum áðurnefndum 100 dögum, en miklar sviptingar voru í borgarstjórn á þeim árum og alls fjórir meirihlutar myndaðir. Dagur var formaður borgarráðs á árunum 2010 til 2014 þegar Samfylkingin myndaði meirihluta með Besta flokknum og Jón Gnarr var borgarstjóri.
Segir ferskleika yfir nýja meirihlutanum
Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur samanstendur af Samfylkingunni, Framsóknarflokknum, Pírötum og Viðreisn. Hann hefur þrettán borgarfulltrúa af 23 og því rúman meirihluta.
Samfylkingin fékk flest atkvæði flokkanna í nýja meirihlutanum í kosningunum í síðasta mánuði, 20,3 prósent, og er með fimm borgarfulltrúa. Flokkurinn tapaði þó fylgi milli kosninga. Framsókn vann mikinn kosningasigur, fékk 18,7 prósent atkvæða og fjóra borgarfulltrúa, en hafði engan áður. Píratar fengu 11,6 prósent atkvæða og þrjá borgarfulltrúa og Viðreisn 5,2 prósent og einn borgarfulltrúa. Samanlagt fengu flokkarnir fjórir því 55,8 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn bundust böndum eftir kosningarnar og Vinstri græn útilokuðu þátttöku í meirihlutasamstarfi eftir að hafa beðið afhroð. Því var engin önnur lausn við myndun meirihluta en samstarf flokkanna þriggja við Framsóknarflokkinn.
Dagur sagði á blaðamannafundi í dag þar sem sáttmáli nýs meirihluta var kynntur að það væri mikill ferskleiki yfir nýja meirihlutanum. Einar sagðist ákaflega ánægður með sáttmálann sem endurspegli kröfur Framsóknar í borginni. Hann telur sáttmálann einnig svara kalli á breytingar í borginni.