Oddvitar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík ætla að kynna nýjan meirihluta í borginni og málefnasamning flokkanna á sameiginlegum blaðamannafundi á bak við stöðvarstjórahúsið í Elliðaárdal. Frá þessu greinir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, í tilkynningu til fjölmiðla. Fundurinn fer fram utandyra.
Meirihlutaviðræður Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hafa staðið yfir síðan 24. maí, 10 dögum eftir kosningar.
Í upphafi viðræðnanna sagði Einar að öll áhersla yrði lögð á málefni áður en til verkaskiptingar kæmi. Hann hefur ekki gert kröfu um borgarstjórastólinn og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagðist ekki ganga ilt meirihlutaviðræðanna með neina úrslitakosti.
Það virðist hafa tekist og verður afraksturinn kynntur í Elliðaárdal í dag, þar sem meirihlutaviðræðurnar hafa staðið yfir síðustu daga.