Rekstrartap útgáfufélagsins Birtings, sem er umfangsmesta tímaritsútgáfa landsins, nam 74,2 milljónum króna á síðasta ári. Það er mun minna rekstrartap en árið áður, þegar það nam rúmlega 200 milljónum króna.
Eigið fé félagsins var neikvætt um 67,3 milljónir króna í lok árs 2021. Velta Birtings var 220,4 milljónir króna og dróst saman um 56,2 milljónir króna milli ára, eða um fimmtung. Á móti hefur launakostnaður félagsins dregist afar skarpt saman frá árinu 2020, úr 222,3 milljónum króna í 125,5 milljónir króna, eða um 44 prósent. Stöðugildum hjá Birtingi fækkaði enda úr 25 í 12 á síðasta ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi Birtings fyrir árið 2021 sem birtur var nýverið í ársreikningaskrá Skattsins.
Hagnaður vegna afskrifta
Þrátt fyrir mikið rekstrartap í fyrra skilaði Birtingur 50,2 milljón króna hagnaði. Ástæða þess er að 135,2 milljón króna skuld félagsins var afskrifuð. Afskriftin er færð sem tekjur. Skuldin var seljendalán frá fyrrverandi eiganda Birtings, Fjárfestingafélaginu Dalnum, sem veitt var þegar Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, núverandi eigandi og framkvæmdastjóri félagsins, eignaðist það sumarið 2020.
Á þessu tímabili gaf Birtingur úr Vikuna, Gestgjafann og Hús og Híbýli auk þess sem það haf út fríblaðið Mannlíf og hélt úti vefnum mannlif.is. Tapið á rekstri Birtings á árunum 2017 til 2020 var 762 milljónir króna.
Útgáfu fríblaðsins var hætt í kjölfarið og mannílfsvefurinn seldur til Reynis Traustasonar og viðskiptafélaga hans snemma árs 2021.
Í dag gefur Birtingur því einungis út áðurnefnd þrjú tímarit.
Sátu uppi með Birting eftir að hafa lánað Birni Inga
Innkoma Róberts Wessman og viðskiptafélaga hans í fjölmiðlageirann átti sér þó lengri aðdraganda. Hann hafði komið að fjármögnun á fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar undir hatti Pressunar, sem reis hæst á árunum 2014 til 2017 með fjölmörgum yfirtökum á öðrum fjölmiðlum.
Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Reksturinn gekk afleitlega og útheimti sífellt meira fé. Það leiddi til þess að í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar.
Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts, Árna og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga.
Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis.