Danir hafa bannað trúarlegar slátrunaraðferðir á dýrum með lögum sem gera dýravernd æðri trúarhefðum. Samfélög gyðinga og múslima í Danmörku eru mjög ósátt við bannið.
Reglurnar, sem skylda sláturhús til að svæfa dýrin áður en þeim er slátrað, ná nú einnig yfir trúarhópa og -samfélög. Trúarhóparnir höfðu haft undanþágu frá slíkum reglum. Nýju lögin útiloka þessar undanþágur. Dan Jørgensen, landbúnaðarráðherra, sagði TV2 að skýrt væri að „dýravernd væri æðri trúarhefðum“ í Danmörku.
Slátrunaraðferðirnar sem Danir hafa bannað eru til dæmis þær sem notaðar eru til að búa til „kosher“ og „halal“, hefðbundna rétti gyðinga og múslima. Báðar fela í sér slátranir dýra eftir helgum siðum.
Aðgerðarsamtökin Danskt halal (d. Dansk Halal) hefur sagt bannið í mótsögn við trúfrelsisákvæði danskra laga. Ísraelskur ráðherra hefur jafnframt blandað sér í umræðuna og sagt bannið andsemitískt. Þá eru nýju reglurnar taldar hafa áhrif á viðskipti milli Danmerkur og landa eins og Sádí Arabíu.
Strangtrúaðir gyðingar og múslimar geta ekki borðað kjöt nema dýrið sem afurðin kemur af hafi verið drepið með einföldum hálsskurði, sem ætlaður er til þess að takmarka þjáningar dýrsins.