Hver skyldi vera þjóðarréttur Dana? Er það rauð pylsa eða kjötbollur? Gæti það verið purusteik eða kannski medisterpysla? Þótt allur þessi matur sé í margra augum „perudanskur“ er enginn þeirra á meðal þeirra átta sem Danir velja nú sem þjóðarrétt.
Á allra síðustu árum hefur mikið verið rætt um „hið norræna eldhús“ eins og það er kallað. Ekki eru það háglansandi skápahurðir eða hæglokandi hljóðlausar skúffur sem þarna er átt við þótt orðalagið gefi það ef til vill til til kynna, heldur maturinn sjálfur. Þegar svo er spurt hvað sé átt við með „hinu norræna eldhúsi“ svara sérfræðingar því til að þá séu menn að meina mat sem til verður eða aflað er á heimaslóðum en ekki fluttur yfir hálfan hnöttinn, einfaldur matur og einföld tilgerðarlaus matreiðsla. Þekktasti veitingastaðurinn í „hinu norræna eldhúsi“ NOMA getur þó engan veginn flokkast undir þennan einfaldleika og tilgerðarlausa matreiðslu, að ekki sé nú minnst á verðið á veitingunum, sem tæpast telst við alþýðuhæfi.
„Ráðherrann lýsti því yfir fyrir nokkru að ekki nái nokkurri átt að Danir skuli ekki eiga einn sannkallaðan þjóðarrétt. Danir séu miklir matmenn, tali mikið um mat, borði mikið og dreymi jafnvel um mat (að sagt er), en þegar spurt er um þjóðarréttinn klóra þeir sér í kollinum og líta hver á annan.“
Hér í Danmörku brosa margir að þessu tali um norrænan mat en allir geta líklega verið sammála um að æskilegt sé að nýta sem mest og best það sem fæst á heimaslóðum. Umræðan um allan þann mat sem endar í ruslatunnunum hefur um nokkurt skeið verið mjög áberandi hér og matvælaráðherrann Dan Jörgensen hefur látið þau mál mjög til sín taka. Hann hefur líka reynt að koma af stað umræðum um hversu mikilvægt það sé að varðveita þjóðlegar matarhefðir. Ráðherrann lýsti því yfir fyrir nokkru að ekki nái nokkurri átt að Danir skuli ekki eiga einn sannkallaðan þjóðarrétt. Danir séu miklir matmenn, tali mikið um mat, borði mikið og dreymi jafnvel um mat (að sagt er), en þegar spurt er um þjóðarréttinn klóra þeir sér í kollinum og líta hver á annan. „Þessu breytum við!“ sagði ráðherrann.
Dan Jörgensen, matvælaráðherra Dana, á góðri stundu.
Matarkosningin mikla
Matvælaráðherrann lét ekki sitja við orðin tóm. Að frumkvæði hans var settur saman listi með 24 þekktum dönskum réttum og svo gafst almenningi kostur á að velja „sinn“ rétt. Landinu var skipt upp í átta svæði og skyldi sá réttur sem flest atkvæði fengi á hverju svæði komast í úrslit. Tugir þúsunda tóku þátt í þessari kosningu og réttirnir átta sem endanlega verður valið á milli eru þessir:
Karbonaði (Krebenettur) með kartöflumús.
Brændende kærlighed (smábrytjað beikon steikt á pönnu með lauk) ásamt kartöflumús og sultuðum rauðrófum, berjum eða sveppum.
Smurt brauð (Smörrebröd) samsett að eigin vali hvers og eins.
Steikt flesk (þykkar beikonsneiðar) steikt á pönnu, með steinseljusósu og soðnum kartöflum.
Eplaflesk (beikon skorið í allstóra teninga) ásamt léttsteiktum eplasneiðum og rauðlauk. Borið fram á volgu rúgbrauði.
Steikt svínakóteletta, ásamt hvítkálsmús (stuvet) og vorlauk.
Hakkabuff (úr nautakjöti) með soðnum kartöflum, gulrótum og/eða rauðrófum og mjúksteiktum lauk og spældu eggi
Steikt síld með kartöflumús, harðsoðnu brytjuðu eggi, hrárri eggjarauðu, asíusneiðum og ristuðu rúgbrauði, skornu í bita.
Hvorki kjötbollur né purusteik
Á listanum eru hvorki kjötbollur né purusteik sem margir höfðu búist við að kæmust í úrslitin. Ekki heldur steikt rauðspretta sem er vinsæll réttur. Þótt spaghetti með kjötsósu sé einn vinsælasti hversdagsmatur Dana bjuggust fæstir við að sá réttur kæmist á listann. Þekktur matreiðslumaður lét hafa eftir sér að það yrði nú saga til næsta bæjar ef Danir veldu slíkt „gums“ sem þjóðarrétt. Sá ótti reyndist semsagt ástæðulaus. Danir eru ekki miklar fiskætur og þess vegna kemur það ekki sérstaklega á óvart að steikt síld skuli vera eini fiskrétturinn sem kemst á blað. Það voru reyndar íbúar Borgundarhólms sem völdu síldina.
Flestir veðja á steikt flesk
Þessa dagana eru Danir að kjósa þjóðarréttinn. Kosið er á netinu og allir geta kosið, hver einstaklingur þó aðeins einu sinni. Síðasti dagur atkvæðagreiðslunnar verður 16. nóvember.
Samkvæmt mjög óformlegum könnunum fjölmiðla hallast flestir að því að steikt flesk með steinseljusósu verði fyrir valinu. Hakkbuffið hafa líka margir nefnt og einnig eplafleskið. Þann 20. nóvember verða svo úrslitin tilkynnt.
Fastlega má búast við að „þjóðarrétturinn“ verði áberandi á matseðlum danskra veitingastaða á næstunni og víst má telja að mikið verði um valið fjallað í fjölmiðlum og skoðanir örugglega skiptar. Ýmsir hafa gert góðlátlegt grín að öllu þessu „þjóðarréttartilstandi“ eins og það er gjarnan kallað en þótt engar tölur hafi verið birtar um „kjörsóknina“ enn sem komið er. Virtur blaðamaður á einu stóru blaðanna hér í Danmörku sagði í sjónvarpsviðtali að þessar kosningar væru alveg dæmigerðar fyrir Dani, „engri annarri þjóð hefði dottið slíkt og þvílíkt í hug.“ Bætti svo við: „verður það ekki þjóðardrykkurinn næst?“