Á fyrstu sex mánuðum ársins tóku dönsk kvikmyndahús á móti sjö milljónum bíógesta. Aukningin á milli ára nemur hátt í 20 prósentum og ff fram heldur sem horfir verður eldra aðsóknarmet slegið, og það á tímum Netflix, ólöglegs niðurhals og fjölda snjalltækja þar sem bíóþyrstir geta svalað þorsta sínum eftir kvikmyndum. Danska ríkisútvarpið greinir frá málinu.
En hvað veldur? Danskir „bíósérfræðingar“ segja að bæði hafi engin hörgull verið á stórmyndum þetta árið, og þá hafi aðsóknin í sumar farið töluvert fram úr væntingum, enda kvarta Danir sáran undan veðrinu þetta sumarið, sem þykir hafa verið úr hófi fram kalt, blautt og vindasamt.
Danski kvikmyndahúsageirinn setti fram metnaðarfulla áætlun fyrir árið 2015, um að selja fimmtán milljónir aðgöngumiða, og ef þróunin verður viðvarandi er ekki loku fyrir það skotið að dönsku bíóin nái hinu háleitna markmiði. Ef það tekst verður um að ræða stærsta „bíóár“ í Danmörku í 34 ár, en þá mun aðsóknin hafa verið á pari við aðsókn í dönsk bíóhús fyrir komu snjallsímanna, spjaldtölvanna og streymiþjónustufyrirtækjanna á borð við HBO og Netflix.
Fjárfestingar sem hafa skilað sér
„Kvikmyndahúsin standa sterkum fótum um þessar mundir,“ segir John Tønnes, forstjóri Nordisk Film, sem rekur kvikmyndahús víða í Danmörku. Hann segir að ný endurbætt kvikmyndahús, með hátölurum frá gólfi og upp í loft, betri stafrænum myndgæðum og þá oft í þrívídd, betri sætum og öðrum aukabúnaði sé á meðal þess sem skýri núverandi velgengni kvikmyndahúsanna. „Þá er upplifunin auðvitað öðruvísi að horfa á kvikmynd í góðu bíói en heima í sófanum. Það sama má segja um fótboltann, það er meiri stemmning að mæta á völlinn en að horfa á liðið sitt í sjónvarpinu heima í stofunni.“
Hann segir að nú sé samkeppnin hvað hörðust í baráttunni um frítíma fólks. „Fyrir nokkrum árum sat ungt fólk bara heima hjá sér og hafði ofan fyrir sér þar, sem var ekki mjög félagsleg reynsla. Í dag getur fjórtán ára sonur minn spilað við hátt í 15 aðra krakka á sama tíma í gegnum netið. Þetta er það sem við erum að keppa við,“ segir segir John Tønnes, forstjóri Nordisk Film.