Samkvæmt tölvupóstum ítalska tæknifyrirtækisins Hacking Team, sem uppljóstrunarsíðan Wikileaks birti nýverið á vefsíðu sinni, keypti danska lögreglan umdeilt njósnaforrit af fyrirtækinu. Danska tæknifréttasíðan Version2 greinir frá málinu.
Eins og fjölmiðlar hafa greint frá, eru töluvpóstar milli íslenskra lögreglumanna og Hacking Tema á meðal ríflega milljón tölvupósta tæknifyrirtækisins sem Wikileaks hefur nú birt. Þar forvitnast lögreglumennirnir um sérstakt njósnaforrit sem gerir þriðja aðila kleift að fylgjast með nánast hverju sem er sem viðkomandi gerir á snjallsímann sinn.
Hacking Team hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að búa til njósnaforrit sem gerir aðilum kleyft að brjóta á friðhelgi einkalífsins. Fyrirtækið hefur selt forritið til lögregluyfirvalda sem og fyrirtækja.
Samkvæmt umfjöllun Version2 greiddu dönsk lögregluyfirvöld Hackint Team 4,2 milljónir danskra króna, eða sem samsvarar hátt í 84 milljónir íslenskra króna, fyrir njósnaforrit sem getur fylgst með snjallsíma- og tölvunotkun. Talsmaður hjá dönsku lögreglunni hefur staðfest þetta í samtali við Version2.
Njósnaforrit Hacking Team gefur aðgang að tölvupóstum, myndum og öðrum skrám í viðkomandi snjallsíma eða tölvu, og getur sótt myndbandsupptökur og kveikt á hljóðnemum án vitundar eigandans.
Samkvæmt gögnum Wikileaks eru lönd eins og Bandaríkin, Danmörk, Kasakstan, Súdan, Bahrein og Sádi-Arabía á meðal viðskiptavina Hacking Team. Danska lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa verslað jafn umdeildan búnað af ítalska tæknifyrirtækinu.