Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var með 5,6 milljónir króna í mánaðarlaun á síðasta ári. Tekjur hans hækkuðu lítillega á milli ára. Davíð fær ekki bara laun fyrir ritstjórastörf heldur líka eftirlaun sem ráðherra, þingmaður og seðlabankastjóri.
Eftirlaun Davíðs fyrir þingmanna- og ráðherrastörf eru 80 prósent af launum forsætisráðherra en eftir nýlega launahækkun hennar fær Katrín Jakobsdóttir 2.470 þúsund krónur á mánuði í grunnlaun. Miðað við laun forsætisráðherra í fyrra hefur Davíð fengið tæplega 1,9 milljón króna í eftirlaun vegna þingmanna- og ráðherrastarfa á árinu 2021. Davíð varð 74 ára í janúar síðastliðnum.
Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag þar sem farið er yfir tekjur um fjögur þúsund Íslendinga á síðasta ári.
Persónulega gjaldþrota en með 4,5 milljónir á mánuði
Í öðru sæti á lista yfir tekjuhæstu fjölmiðlamennina er Björn Ingi Hrafnsson, sem ritstýrir vefnum Viljanum. Björn Ingi er sagður hafa verið með tæplega 4,5 milljónir króna á mánuði í laun í fyrra, en hann varð persónulega gjaldþrota fyrr á þessu ári vegna mála sem tengdust fjölmiðlarekstri hans þrettán árin á undan. Viljinn.is hefur ekki verið uppfærður frá því í júní.
Logi Bergmann Eiðsson, sem starfaði síðast á útvarpssviði Árvakurs við gerð Síðdegisþáttarins á K100, er svo í fjórða sæti með 2,9 milljónir króna á mánuði en hann hefur verið í leyfi frá störfum frá því í janúar 2022 eftir að hafa verið ásakaður um kynferðisbrot. Logi hefur ávallt staðfastlega neitað sök.
Þórhallur Gunnarsson, sem er framkvæmastjóri miðla Sýnar, er í fimmta sæti yfir launahæsta fjölmiðlafólkið með tæplega 2,3 milljónir króna.
Tólf hjá RÚV með meira en milljón
Líkt og í fyrra eru tólf starfsmenn RÚV með yfir eina milljón króna á mánuði í laun og sá þrettándi var með 998 þúsund krónur í laun. Bogi Ágústsson fréttamaður er launahæsti fréttamaður ríkisfjölmiðilsins með tæplega 2,1 milljón króna á mánuði. Bogi er orðinn sjötugur og því nær öruggt að hluti launa hans sé tilkominn vegna töku eftirlauna.
Næst í röðinni er Sigríður Hagalín Björnsdóttir, varafréttastjóri RÚV, með um 1,5 milljónir króna á mánuði. Sigríður er farsæll rithöfundur og hefur tekjur af bókaútgáfu, hér heima og erlendis, til viðbótar við það sem hún fær greitt fyrir störf sín hjá RÚV.
Rakel Þorbergsdóttir, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, er svo í þriðja sæti yfir starfsmenn ríkisfjölmiðilsins með rúmlega 1,3 milljónir króna á mánuði.
Góð laun upplýsingafulltrúa
Nokkrir upplýsingafulltrúar sem áður störfuðu í stétt fjölmiðlamanna komast einnig inn á lista Frjálsrar fjölmiðlunnar um launahæstu fjölmiðlamennina, þótt veru þeirra í þeirri starfsstétt sé lokið, að minnsta kosti í bili.
Þar ber fyrst að nefna Láru Ómarsdóttur, sem yfirgaf RÚV snemma á síðasta ári til að gerast samskiptastjóri hjá Aztiq Fjárfestingum (sem nú heiti Flóki Invest) og stýrt er af Róberti Wessman. Þar kemur hún meðal annars að miðlun upplýsinga fyrir systurfyrirtækin Alvogen og Alvotech sem Róbert og viðskiptafélagar hans stýra einnig og eiga stóran hlut í. Lára var með 2,2 milljónir króna á mánuði í fyrra að meðaltali.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem starfaði sem blaðamaður um árabil, er einnig ofarlega á lista en hún hefur undanfarin ár starfað sem upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar. Hún er með tæplega 1,7 milljónir króna á mánuði í laun.