Ályktun sem heilbrigðis- og eftirlitsnefnd Viðreisnar samþykkti á nýliðnu landsþingi flokksins, og felur í sér að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum, að lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt, hefur valdið deilum innan flokksins.
Þungavigtarfólk innan Viðreisnar hefur sagt ályktunina í andstöðu við grunnstefnu Viðreisnar um ábyrgð í ríkisfjármálum þar sem fullt afnám skerðinga og hækkun á lífeyri myndi kosta ríkissjóð 100-120 milljarða króna á ári. Fyrrverandi varaformaður Viðreisnar sagði í umræðum í lokuðum umræðuhópi flokksmanna að í hans huga liggi „hér trúverðugleiki flokksins undir.“
Orðrétt er ályktunin eftirfarandi: „Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt.“
Hún segir að á hinn bóginn megi benda á að Viðreisn hafi farið fram með slagorðið: hægri hagstjórn, vinstri velferð, fyrir kosningarnar 2016 og 2017. Þorgerður Katrín segir að hún taki þessa ályktun sem samþykkt var á landsþinginu sem skýr skilaboð til forystu flokksins um að afnema einhverjar skerðingar og gera kerfin réttlátari og einfaldari. „Vissulega er þetta skýrt ákall um að það þurfi að taka á skerðingum.“
Sagt óhemjudýrt og ranglátt
Miklar umræður hafa spunnist um ályktunina um að skerðingum verði hætt, sem samþykkt var á landsþingi flokksins, á lokuðu Facebook-umræðusvæði Viðreisnar. Kjarninn hefur undir höndum ýmis ummæli fólks sem hefur verið áhrifamikið í starfi flokksins þar sem ályktunin er harðlega gagnrýnd.
Umræðan hófst þegar Haukur Eggertsson, meðlimur í Viðreisn sem starfar hjá Tryggingastofnun, setti innlegg inn á lokað vefsvæði Viðreisnar á Facebook á sunnudag. Þar sagðist hann telja að heilbrigðis- og velferðarnefnd flokksins hefði gert mistök með landsfundarályktuninni um að hætta skerðingum og hækka bætur innan félagslega kerfisins veulega.
Haukur sagði þrennt aðallega orka tvímælis við samþykktina: hún væri ranglát, gengi gegn grunnstefnu Viðreisnar og væri óhemjudýr.
Hann sagði að trúverðugleiki Viðreisnar sem ábyrgs flokks væri í húfi, enda hefði flokkurinn talað fyrir „aðhaldi í ríkisfjármálum, gegn þarflausri útþenslu báknsins og nauðsyn þess að láta hagsmunasamtök ekki leika lausum hala á kostnað almennings.“
Einn þetta sem leggur orð í belg er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og nú áhrifamaður í Viðreisn. Hann skrifaði að eitt væri að draga úr skerðingum svo þær virki ekki í jafn ríkum mæli sem hemill á atvinnuþátttöku. „Annað er að afnema allar skerðingar og hækka skatta til auka við lífeyri þeirra sem hafa viðunandi eftirlaun frá lífeyrissjóðum. Það er hvorki réttlátt né skynsamlegt.“
„Þetta er stórslys“
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Viðreisnar, sagði í innleggi sem birtist á mánudag að nýja stefnan fæli í sér, varlega áætlað, yfir 100 milljarða króna kostnað fyrir ríkissjóð á ári. „Að bæta stöðu aldraðra einstaklinga með lágar tekjur er mikilvægt enda er þar hópur fólks sem býr við sára fátækt. Það er hins vegar rétt að hafa í huga að í hópi aldraðra er einnig að finna mjög vel stætt fólk sem ekki þarf á framfærslu frá hinu opinbera að halda. Af 50 þúsund ellilífeyrisþegum í dag eru aðeins um 1.500 sem aðeins fá greiðslur frá Tryggingastofnun en 35 þúsund með blandaðar greiðslur og 12.500 aðeins með greiðslur frá lífeyrissjóðum, þ.e. tekjur þeirra hafa skert opinberan ellilífeyri að fullu. Það sýnir best hvað almenn hækkun fjárhæða og afnám skerðinga er ómarkviss og dýr leið til að bæta kjör hinna verst stöddu.“
Þorsteinn spurði hvernig það mætti vera að flokkur sem gagnrýndi harðlega aðra flokka fyrir fjórum árum fyrir slíka stefnu og fyrir að greina ekki frá kostnaði við slíka breytingu, hefði nú tekið slíka stefnu upp á sína arma? Í mínum huga liggur hér trúverðugleiki flokksins undir.“
Síðar segir hann að í tillögunni felist grundvallarbreyting á stefnu Viðreisnar og upptaka á tvöföldu lífeyriskerfi. „Breyting sem þessi felur í sér gríðarlega aukningu ríkisútgjalda. Þetta er stórslys og flokkur sem hefur ábyrgð í ríkisfjármálum að leiðarljósi getur ekki haft slíkt á stefnuskrá sinni. Hvers vegna ætti einstaklingur með háar tekjur af eigin lífeyrissparnaði að fá óskertan lífeyri frá ríkinu því til viðbótar?“
Nær ekki yfir allt
Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, er sá sem lagði fram breytingartillöguna við ályktunina um afnám skerðinga og hækkun bóta sem var samþykkt á landsþinginu.
Hann sagði í umræðum um málið á lokuðu svæði Viðreisnar á Facebook að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið sá að „ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu um upphaflega textann sem fjallaði um skerðingar vegna launatekna og síðan tillögu um verulega hækkun á skerðingarmörkum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. „Komandi úr verkalýðshreyfingunni fagna ég því að niðurstaðan hafi orðið þessi þ.e. uppruni tekna skipti ekki máli.“
Síðar í sama innleggi segist Guðbrandur ekki hafa setið í heilbrigðis- og velferðarnefnd og ekki hafa tekið þátt í að móta ályktunina sem slíka. „Ég er hins vegar sáttur við hana en hún nær að sjálfsögðu ekki yfir allt sem við höfum að segja í heilbrigðis og velferðarmálum. Ég hef heldur ekki kostnaðartöluna á hreinu en vil benda á að við eigum að nota skattkerfið til að afla tekna og tekjujafna en ekki millifærslukerfin. Og ef það er einhver vilji til að horfa til fátæku konunnar með börnin þá er skattkerfið leiðin.“