Þýski bankinn Deutsche Bank, sem tilkynnt var að hefði keypt Icesave-kröfu hollenska seðlabankans í fyrradag, er búinn að selja kröfuna áfram. Þetta staðfesta fulltrúar Deutsche Bank og hollenska seðlabankans í samtali við Kjarnann. Hvorugur bankinn vill upplýsa hver endanlegir kaupendur eru né hversu margir þeir eru. Kjarninn hefur hins vegar heimildir fyrir því að þeir séu á fleiri en tveir og á meðal þeirra séu þekktir vogunarsjóðir. Kaupverðið á eftirstandandi kröfunum var 623 milljónir evra, um 96 milljarðar króna. Þrotabú Landsbankans var þegar búið að greiða 811 milljónir evra, um 125 milljarða króna, inn á kröfuna.
Icesave-krafan, sem myndaðist vegna greiðslna hollenskra yfirvalda á innstæðutryggingum vegna Icesave-reikninga Landsbankans, nýtur forgangs í bú bankans. Icesave-reikningarnir voru netreikningar sem bankinn bauð upp á í Hollandi og Bretlandi sem báru mun hærri innlánsvexti en aðrir voru að bjóða upp á. Því flykktust viðskiptavinir til Landsbankans vegna þeirra, enda ávöxtun á fé mun hærri þar en annarsstaðar. Þessi mikla aðsókn leiddi til þess að Icesave-innlánssöfnunin varð að risavaxinni alþjóðadeilu þegar ljóst var að hinn gjaldþrota Landsbanki gat ekki greitt innstæðueigendum eignir sínar strax eftir bankahrun. Innstæðutryggingasjóðir landanna tveggja greiddu hluta innstæðanna til baka og við það eignuðust þeir kröfu á Landsbankann. Það er sú krafa sem hollenski seðlabankinn seldi í vikunni.
Nokkrir aðilar keyptu
Hollenski seðlabankinn tilkynnti að hann hefði selt kröfuna til Deutsche Bank. Það er hins vegar ekki alveg nákvæmt því bankinn var ekki endanlegur kaupandi. Fulltrúi hollenska seðlabankans sem Kjarninn ræddi við sagði að seðlabankinn hefði ráðið Deutsche Bank sem milligönguaðila. Þýska bankanum var því falið að finna aðila sem væru reiðubúnir til að kaupa kröfuna. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru nokkrir aðilar sem keyptu. Hollenski seðlabankinn vill hins vegar ekki upplýsa um hverjir það voru né hversu margir kaupendurnir voru vegna trúnaðarsamkomulags sem gert var vegna kaupanna.
Nick Bone, hjá Deutsche Bank AG, tók í sama streng. Hann vildi ekki upplýsa um kaupendurna né hversu margir þeir væru. „Deutsche Bank var að vinna sem umsjónaraðili uppboðs til að selja kröfur ákveðinna fjárfesta í Landsbankanum áfram til þriðja aðila,“ segir Bone.
Fámennur hópur sem kaupir íslenskar kröfur
Viðmælendur Kjarnans segja að afar sértækur markaður hafi skapast fyrir kröfur á fallinn íslensk fjármálafyrirtæki. Að miklu leyti séu sömu fjármálafyrirtækin og vogunarsjóðirnir að kaupa kröfurnar, aðallega aðilar sem hafa þegar mjög sterka stöðu í kröfuhafahópum fallina íslenskra banka. Því séu mestar líkur á að kaupendurnir séu úr þessum hópi.